Eitt tilboð barst í byggingu annars áfanga Stekkjaskóla á Selfossi sem Sveitarfélagið Árborg bauð út í sumar.
ÞG verk ehf átti eina tilboðið og hljóðaði það upp á tæpa 2,6 milljarða króna. Tilboðið var 3,4 prósentum yfir kostnaðaráætlun sveitarfélagsins, sem var rúmlega 2,5 milljarðar króna.
Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í morgun að taka tilboði ÞG verk, svo fremi sem fyrirtækið standist kröfur útboðsgagna. Verkið felst í áframhaldandi uppbyggingu skólans en heildarstærð Stekkjaskóla verður 11.100 fermetrar og mun hann hýsa 1.–10. bekk grunnskóla, Tónlistarskóla Árnesinga, leikskóla og íþróttahús.
Byrjað er að reisa fyrsta áfanga skólabyggingarinnar og er stefnt að því að taka hana í notkun í lok árs. ÞG verk sér einnig um þá framkvæmd. Framkvæmdum við annan áfanga á að vera lokið þann 5. júlí 2024