„Þetta var bara rifið úr höndunum á okkur“

Guðrún María við tómar hillur í Húsasmiðjunni. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Allir rafmagnsofnar og hitablásarar eru uppseldir í Húsasmiðjunni á Selfossi.

Þegar ljóst var að Njarðvíkuræðin væri farin í sundur vegna eldgossins sem hófst í morg­un á Reykjanesi tæmdist lagerinn í Húsasmiðjunni á Selfossi – og víðar – hratt.

„Þetta var bara rifið úr höndunum á okkur. Fólk var að koma hingað frá Njarðvík og víðar. Þetta byrjaði upp úr klukkan 11 í morgun,“ segir Guðrún María, hjá Húsasmiðjunni á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Guðrún María segir að birgðirnar sem þau áttu á höfuðlagernum hafi svo verið sendar í verslunina í Reykjanesbæ sem sett hafi verið í forgang.

Að sögn Guðrúnar Maríu voru það mestmegnis Selfyssingar sem eiga fjölskyldu á Suðurnesjunum sem voru að kaupa rafmagnsofna og hitablásara hjá þeim. „Fólk hefur áhyggjur af barnabörnunum sínum. Þetta er búið að vera pínulítið panik ástand hjá okkur.“

Fólk að leita að gashiturum
„Það seldist allt upp á heimasíðunni hjá okkur. Fólk er núna rosalega mikið að leita eftir gashiturum, fólk er hrætt um að verða rafmagnslaust,“ segir Guðrún María en Suðurnesjamenn hafa verið beðnir um að spara rafmagnið þar sem hætta er á rafmagnið slái út.

Guðrún María segir að hún sé búin að vera í tölvunni í allan dag að leita að rafmagnsofnum fyrir viðskiptavini. „Við erum farin að vísa á aðrar verslanir og farin að hringja fyrir fólk – reyna að aðstoða það einhvern veginn.“

Þegar blaðamaður sunnlenska.is leit við í Húsasmiðjunni um klukkan fjögur í dag voru allar hillur sem geyma rafmagnsofna og hitablásara tómar og Guðrún María rétt svo að ná andanum eftir mjög annasaman dag. „Við vorum þrjú á tímabili þegar mest stóð á að svara í síma, bara stanslaust. Fólk var að biðja um að láta taka frá fyrir sig. Á svona tíu mínútum tæmdum við pallettuna sem við vorum með hér. Þetta var mjög skrítið.“

„Það voru margir orðnir stressaðir og í hálfgerðu kvíðakasti. Fólk var samt alveg kurteist og bað um að láta taka frá fyrir sig. Það kom til dæmis einn úr Mosó sem sagðist ætla að koma eftir þrjú korter og svo brunaði hann bara af stað til okkar,“ segir Guðrún María að lokum.

Eldgosið hófst um klukkan sex í morgun norðan við Sýlingarfell. Ljósmynd/Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra
Á tólfta tímanum í morgun hafði hrauntungan sem teygir sig í vestur farið yfir heitavatnslögnina frá Svartsengi og rofið hana. Ljósmynd/Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra
Fyrri greinUTU tekur við seyruverkefninu
Næsta greinToppliðið sigraði botnliðið