Selfyssingurinn Elísabet Björgvinsdóttir er komin í átta manna úrslit í söngvarakeppninni Idol stjörnuleit á Stöð 2.
Eftir fjölmargar áheyrnarprufur þar sem fjögurra manna dómnefnd valdi á milli keppenda er Elísabet núna komin í hóp þeirra átta sem keppa munu í beinni útsendingu á Stöð 2. Sjónvarpsáhorfendur velja svo með símakosningu hvaða keppendur komast áfram.
Ótrúlega spennt
„Tilfinningin er ólýsanlega góð að vera komin áfram. Þetta er draumur að rætast og ég er ótrúlega spennt fyrir þessu og þakklát fyrir tækifærið,“ segir Elísabet þegar sunnlenska.is heyrði í henni hljóðið.
Aðspurð hvort hún hafi átt von á því að komast í lokahópinn segir Elísabet það vera góða spurningu. „Ég veit hvað í mér býr en það eru svo ótrúlega margir hæfileikaríkir einstaklingar í þessari keppni að ég verð að segja nei, ég bjóst ekki við þessu,“ segir Elísabet en þess má geta að rúmlega hundrað keppendur sungu upphaflega fyrir dómnefndina sem skar svo hópinn smátt og smátt niður þar til þau voru orðin átta eftir.
Elísabet er spennt fyrir því að syngja í beinni í sjónvarpssal. „Þetta leggst ótrúlega vel í mig. Mig hefur alltaf dreymt um það að syngja í beinni útsendingu og ég er svo heppin að draumurinn er að rætast,“ segir Elísabet og bætir því við að hún geti því miður ekki sagt hvaða lag hún mun syngja næsta föstudagskvöld en getur þó sagt að æfinganar hafi gengið vel.
Góð stemning í hópnum
Þeir sem hafa fylgst með þáttunum vita að keppnin er hörð en það hefur þó verið eftirtektarvert hversu góðir vinir keppendur virðast vera og eru duglegir að klappa fyrir hvor öðrum.
„Stemningin í hópnum er svo ótrúlega góð. Fólkið sem er eftir í keppninni eru orðnir mínir bestu vinir sem er svo dýrmætt. Ég átti svo sannarlega von á því að okkur myndi koma vel saman, þetta fólk eru svo mikil gull og ég er svo þakklát fyrir það að fara í gegnum þetta ferli með þeim“
Elísabet hefur gert mikið af því að syngja í gegnum tíðina og er Idol stjörnuleit ekki fyrsta söngvakeppnin sem hún tekur þátt í. Hún sigraði til að mynda í söngkeppni NFSu árið 2022, syngur einnig með kór FSu og sést reglulega troða upp á hinum ýmsum tónlistarviðburðum.
„Það hefur alltaf verið draumurinn minn að keppa í Idolinu. Tíu ára ég væri að springa úr spenningi núna. Ég er núna að keppa í Idol í annað sinn þar sem ég keppti einnig í fyrstu þáttaröðinni. Það má segja að þetta sé minn stærsti draumur og það hvetur mann til þess að elta hann.“
Mikil gleði og spenningur
Elísabet er með gott bakland og segir hún viðbrögð frá fjölskyldu og vinum hafa verið frábær þegar þau fréttu að hún væri komin í átta manna úrslit.
„Það er mikil gleði og spenningur þar sem þau vita hvað ég hef unnið mikið fyrir því að komast svona langt. Líka að reyna að komast í beinar útsendingar í annað skipti gerir þetta svo skemmtilegt því það var markmiðið.“
„Ég vil nýta tækifærið og þakka öllum fyrir stuðninginn og fallegu skilaboðin sem mér hafa borist. Það er yndislegt að hafa svona gott fólk í kringum sig sem er alltaf tilbúið að styðja mann. Takk takk takk! Einnig vil ég hvetja fólk til að elta draumana sína, því þeir geta ræst,“ segir Elísabet að lokum.
Kosninganúmer Elísabetar á föstudaginn er: 900-9001