„Þetta er mikil gleðistund“

Regína Birkis, elsti núlifandi afkomandi Jónasar Kristjánssonar læknis, tók fyrstu skóflustunguna með aðstoð sonar síns, Gunnlaugs K. Jónssonar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Þetta er mikil gleðistund. Við höfum verið að leita leiða til þess að tryggja uppbyggingu Heilsustofnunar undanfarin tuttugu ár og nú er er stór dagur í sögu stofnunarinnar,“ sagði Gunnlaugur K. Jónsson, forseti NLFÍ og formaður rekstarstjórnar Heilsustofnunar NLFÍ, þegar fyrsta skóflustungan að nýju íbúðahverfi við Lindarbrún í Hveragerði var tekin í dag.

Í Lindarbrún verða byggðar 84 íbúðir og mun allur afrakstur af sölu á þeim renna þess til að endurnýja meðferðaraðstöðu og bæta aðra aðstöðu Heilsustofnunar.

Lent á skerjum en aldrei gefist upp
„Aðal viðskiptavinur Heilsustofnunar í gegnum tíðina hafa verið íslensk heilbrigðisyfirvöld. Þau eru hins vegar þannig að það er ekki gert ráð fyrir neinu fé til meiriháttar framkvæmda og hvað þá nýbygginga, þannig að í gegnum tíðina hefur Náttúrulækningafélagið fyrst og fremst þurft að standa að þeim málum sjálft. Við höfum lent á skerjum, en aldrei gefist upp og síðustu þrjú ár höfum við unnið til góðra verka með Ernst&Young. Við höfum alltaf notið óskorins stuðnings frá bæjaryfirvöldum og við værum ekki hér án Hveragerðisbæjar og þess stuðnings sem við höfum notið frá bænum alla tíð,“ sagði Gunnlaugur ennfremur, en Heilsustofnun er stærsti vinnuveitandinn í Hveragerði.

Þórir Haraldsson, forstjóri Heilsustofnunar NLFÍ, kynnti verkefnið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Meira en bara íbúðir
Þórir Haraldsson, forstjóri Heilsustofnunar, kynnti verkefnið að lokinni skóflustungu og í máli hans kom fram að lögð verði mikil áhersla á nálægðina á umhverfið og náttúruna, til að mynda verði gott göngustígakerfi í hverfinu, sem tengist stígakerfi bæjarins.

„Þetta er meira en bara íbúðir, þetta er heilsusamfélag og með þessum íbúðum fylgir þjónustusamningur við Heilsustofnun um þjónustu, þannig að fólk sem hér kemur fær heilsufarsskoðun, ráðgjöf og þjónustu frá Hilsustofun og hefur aðgang að stofnuninni, þannig að hægt sé að viðhalda andlegu og líkamlegu heilbrigði. Við munum leggja mikið í íbúðirnar og umhverfið og leggja mikið upp úr því að þetta sé vel byggt, en allar íbúðirnar verða umhverfisvottaðar með LEED vottun,“ segir Þórir. Raunar verður Lindarbrún fyrsta LEED-vottaða verkefnið á Íslandi en LEED er mest notaða einkunnakerfið í heiminum fyrir grænar byggingar.

32 íbúðir í fyrsta áfanga
Sem fyrr segir verður heildarfjöldi íbúða 84 íbúðir en í fyrsta áfanga verða byggðar 32 íbúðir. Að sögn Þóris mun jarðvinna á svæðinu væntanlega hefjast í næstu viku. Framkvæmdatíminn í fyrsta áfanga er 12-15 mánuðir en það er Þingvangur ehf er verktaki við framkvæmdirnar. Opnuð hefur verið heimasíðan lindarbrun.is þar sem áhugasamir geta skráð sig á lista og fengið upplýsingar um verkefnið áður en íbúðirnar þær fara í almenna sölu.

Tölvugerð mynd af nýja hverfinu við Lindarbrún.
Fyrri greinSkipta fjármál Sveitarfélagsins Árborgar þig máli?
Næsta greinValur stakk af í lokin