„Þessi umgengni við náttúruna er óásættanleg með öllu“

Við Fjaðrárgljúfur. Mynd úr safni. Ljósmynd/UST

Sveitarstjórn Skaftárhrepps harmar þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að hafa ekki starfandi landvörð við Fjaðrárgljúfur frá síðustu áramótum og fram á sumar.

Ófremdarástand skapaðist í Fjaðrárgljúfri strax eftir áramótin þegar landvörslu á vegum Umhverfisstofnunar lauk og hefur gljúfrinu nú verið lokað vegna átroðnings og hættu á gróðurskemmdum.

Í bókun sveitarstjórnar Skaftárhrepps um málið segir að reynslan frá síðasta vetri hafi sýnt að svæðið þolir ekki þann gestafjölda sem þarna er, án þess að landvörður sé á svæðinu til þess að upplýsa gesti og stýra umferð.

„Þessi umgengni við náttúruna er óásættanleg með öllu. Sveitarstjórn krefst þess að Umhverfisstofnun haldi úti landvörslu alla daga allt árið, eins og sýnt er að þörf er á,“ segir í bókun sveitarstjórnar sem send var til Umhverfisstofnunar í lok síðustu viku.

Fjaðrárgljúfur verður lokað þangað til aðstæður batna en í bókun sveitarstjórnar kemur fram að eftir núverandi lokun sé áætlað að hafa opið án landvörslu.

Í bréfinu til Umhverfisstofnunar segir Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri, að Umhverfisstofnun verði að finna lausn á því að færa fjármagn úr lokunarsjóði til heilsárslandvörslu þar sem slíkt mun spara umtalsvert fjármagn á kostnaðarsömu viðhaldi sem annars skapast vegna átroðnings og eftirlitsleysis.

Fyrri greinFSu í sjónvarpið
Næsta greinLítið hlaup í Múlakvísl