„Þessi á skilið orðu“

Frá slökkvistarfinu við Kolgrafarhól í morgun. Ljósmynd/BÁ

Eldur kviknaði í gróðri við Kolgrafarhól í Grímsnesi í morgun. Snarræði vegfaranda kom í veg fyrir stórbruna.

„Þetta var við göngustíg þarna á svæðinu og hefði getað farið mjög illa. Vegfarandinn sem tilkynnti þetta kallaði til fólk og hann var með fimm skóflur í bílnum þannig að þau gátu strax farið að vinna á þessu. Það eru ekki allir vegfarendur svona vel út búnir en þessi á skilið orðu fyrir viðbragðið,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

„Þrastaskógur er eitt af þéttustu svæðunum okkar hvað varðar sumarhúsabyggð og trjágróður og það hefur oft verið bent á hættuna af gróðureldum þar. Þetta hefði getað orðið risastórt og farið mjög illa ef eldurinn hefði náð að breiðast út. Enda var talsverður viðbúnaður frá okkur hér á Selfossi og lögreglunni sem mætti fljótlega á vettvang og notaði slökkvitæki úr lögreglubílunum,“ bætir Pétur við.

Óvissustig almannavarna frá Eyjafjöllum að Snæfellsnesi
Eftir útkallið í morgun ákvað ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum.

„Það hefur ekki rignt hjá okkur í langan tíma og það spáir ekki rigningu næstu vikuna og allur jarðvegur er mjög þurr,“ segir Pétur. Slökkviliðsmenn á Suðurlandi hafa ekki fengið önnur útköll vegna gróðurelda síðustu daga en talsvert lið frá BÁ var sent á vettvang í stórbrunanum í Heiðmörk í fyrradag.

Svæðið sem óvissustigið nær yfir nær frá Eyjafjöllum að sunnanverðu Snæfellsnesi. Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opin eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál. Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinVar ótrúlega ófrumlegur krakki
Næsta greinAnnað útkall vegna gróðurelds