Þekkingarsetrin gegna mikilvægu þjóðfélagshlutverki

Sigurður Sigursveinsson stýrði pallborðsumræðunum þar sem sátu auk ráðherra þau Sæunn Stefánsdóttir forstöðumaður Stofnunar rannsóknarsetra HÍ og þingmennirnir Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Teitur Björn Einarsson. Ljósmynd/Háskólafélag Suðurlands

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ávarpaði ársfund Samtaka þekkingarsetra sem haldinn var á Selfossi í síðustu viku. Samtökin eru netverk þekkingarsetra á landsbyggðinni sem starfa m.a. að rannsóknum og þróun til eflingar byggða, þjónustu við háskólanema og eflingu nýsköpunar, atvinnu og samfélagsþróunar.

Þrjú þekkingarsetur eru á Suðurlandi; Háskólafélag Suðurlands á Selfossi, Nýheimar á Höfn í Hornafirði og Þekkingarsetur Vestmannaeyja.

„Þekkingarsetrin gegna mikilvægu þjóðfélagshlutverki í dag og styðja við samfélagið með fjölbreyttum hætti. Ég vil sjá þekkingarsetrin gegna enn stærra hlutverki í framtíðinni enda hafa þau öll sterk tengsl við nær samfélög sín og það er mikill fjöldi tækifæra sem nýta má enn betur. Ég hlakka til að ráðast í stefnumótun um framtíðartækifæri setranna og hvernig þau geta verið seglar fyrir samfélög víða um land,” sagði ráðherra meðal annars í ávarpi sínu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra, ávarpar ársfundinn. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Lausir samningar skapa rekstraróvissu
Þekkingarsetrin sem mynda samtökin eru með lausa samninga við ráðuneytið og hafa verið svo síðan 2018, með tilheyrandi óvissu í rekstri. Unnið er að því innan ráðuneytisins í svokölluðum spretthópi að skilgreina hlutverk þekkingarsetra og Fablab smiðja um land allt og endurskoða alla samninga við slíka aðila. Stefnt er að því að í framtíðinni verði samningar ekki með óbreyttu sniði heldur taki þeir skýrara mið af áherslum ráðuneytisins í málaflokknum.

Í tilefni af ársfundinum stóðu samtökin fyrir málþingi þar sem fjallað var um þau verkefni og hlutverk sem setrin gegna á sínum svæðum og mikilvægi þeirra í samfélaginu, ásamt þeirri staðreynd að samningar við ráðuneytið séu lausir. Góðar og málefnalegar umræður urðu í pallborðinu og tóku félagar í Samtökum þekkingarsetra með sér góðan stuðning og skilning á mikilvægi sinnar vinnu út úr deginum á Selfossi.

Ljósmynd/Háskólafélag Suðurlands
Fyrri greinCarlos ráðinn til Selfyssinga
Næsta greinMikil uppbygging á Borg