„Þeir þola alveg þennan snjó í viku“

Orpnir tjaldar liggja sem fastast en aðrir seinka sér ef til vill um nokkra daga. Hér liggur einn á eggjum á Laugarvatni. Ljósmynd/Tómas Grétar Gunnarsson

Hið mikla og heldur óvænta fannfergi hefur varla farið framhjá Sunnlendingum í dag. En á meðan við mannfólkið getum hlýjað okkur í híbýlum okkar þá er ekki það sama upp á teningunum hjá farfuglunum.

Sunnlenska.is sló á þráðinn til Tómasar Grétars Gunnarsson, forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi og fuglafræðings með meiru, til að heyra hvað áhrif þessi jólasnjór í lok apríl hefði á farfuglana.

„Það fer algjörlega eftir því hvað þessi snjór verður lengi. Eins og spáin er núna þá verður þetta út vikuna. Þetta getur verið erfitt fyrir litlu fuglana. Það eru ekki margir fuglar byrjaðir að verpa – það eru helst grágæsir, álftir, tjaldar og svo einhverjir þrestir. Þessir stóru fuglar þola þetta alveg. Þeir fuglar sem eru ekki byrjaðir að verpa geyma það í viku, þeir geta það alveg,“ segir Tómas.

Tómas segir að ef það séu ekki jarðbönn allan sólarhringinn – það er að segja það mikill snjór að fuglarnir komast ekki í jörðu – þá valdi fannfergið ekki miklum vandræðum fyrir farfuglana. „Ef þessi snjór varir bara í viku, þá er það í lagi. Fuglarnir hafa alveg forða til að þola kaldar nætur í einhverja daga. Við sjáum það þó ekki fyrr en í sumar þegar við förum í ungatalningu hvaða áhrif þessi snjór hefur á fuglana,“ segir Tómas og bætir því við að vorið 2015 hafi einnig verið mjög kalt og þá hafi verið verri varpárangur hjá tjöldunum.

En er það eitthvað sem við mannfólkið getum gert til að hjálpa farfuglunum til að lifa þennan snjó af? „Þeir sem eru búnir að vera að gefa smáfuglunum í görðunum sínum eiga endilega að gera það áfram – þrestir, maríuerlur, auðnutittlingar koma í garðana. Það hjálpar einhverjum fuglum en ekki stofninum í heildina en fuglarnir hafa það aðeins skárra fyrir vikið,“ segir Tómas að lokum.

Fyrri greinTveir handteknir vegna andláts á Selfossi
Næsta greinValur lagði vængbrotna Þórsara