Morgunverðarstaðurinn Byrja á Selfossi fagnar tveggja ára afmæli í kvöld en staðurinn var opnaður í lok janúar 2024. Það verður opið langt fram á kvöld og eigendurnir eru búnir að redda næturpössun!
„Við ætlum að fagna þessum tveimur frábæru árum með því að hafa opið langt fram á kvöld, eldhúsið verður opið og happy hour og allskonar tilboð á drykkjum. Við ætlum að bjóða upp á allan matseðilinn, þannig að þeir sem vilja fá morgunmat í kvöldmat geta nýtt tækifærið,“ segir Vigfús Blær Ingason sem á Byrja ásamt konu sinni, Christine Rae.

Hreykin af því hvar við stöndum
Fúsi segir að það hafi gengið vel fyrstu tvö árin og það séu ekki bara ferðamenn sem komi við á Byrja heldur séu heimamenn duglegir að sækja staðinn.
„Við erum voðalega montin af þessum fyrstu tveimur árum hjá okkur, þetta er búið að vera sjúklega gaman og við erum búin að stimpla okkur rækilega inn hér í samfélaginu. Það er svo gaman að sjá hvað Selfyssingar og nágrannar okkar eru duglegir að koma hingað. Tvö ár er ákveðinn þröskuldur í þessum bransa og við erum ákaflega hreykin af því hvar við stöndum eftir þessi tvö ár,“ segir Fúsi. „Með því að stíga yfir tveggja ára þröskuldinn þá getum við sagt að Byrja sé komið til að vera og að byrjuninni á Byrja sé lokið.“
Búin að redda næturpössun
„Nú viljum við bara fagna með okkar fólki, við eigum dyggan viðskiptavinahóp sem er duglegur að koma og ég vona að sem flestir kíki á okkur í kvöld, þó það sé ekki nema bara rétt til að reka inn nefið. Nú lækkum við ljósin, hækkum í tónlistinni og fögnum saman! Við hlökkum til að sjá sem flesta, við Christine erum að minnsta kosti búin að redda næturpössun, þannig að við verðum hérna langt fram á kvöld,“ segir Vigfús hlæjandi að lokum.


