Þeim fjölgar sem nota aldrei strætó

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Aðeins 26% íbúa á Suðurlandi eru ánægðir með almenningssamgöngur á Suðurlandi en 51% eru í meðallagi ánægðir. 23% eru óánægð með almenningssamgöngur á Suðurlandi.

Þetta kemur fram í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Samtök sunnlenskra sveitarfélaga í febrúar og mars síðastliðnum. Alls svöruðu 924 könnuninni.

Á Suðurlandi eru 73% íbúa sem nota aldrei strætó og hefur sá hópur stækkað frá könnun sem gerð var árið 2016. Þá eru jafnframt færri sem nota strætó 1-5 sinnum á ári í dag en áður. Örlítið meiri notkun er á strætó til og frá höfuðborgarsvæðinu heldur en innan Suðurlands.

Íbúar í Árborg, Hveragerði, Ölfusi, Flóahreppi, Rangárvallasýslu, Höfn og Vestmannaeyjum eru jákvæðastir samkvæmt könnuninni en mesta óánægjan er á Kirkjubæjarklaustri og í Uppsveitunum.

Samkvæmt könnuninni fara flestir á einkabíl sem bílstjóri í vinnu eða skóla og þeim sem taka strætó til að komast til eða frá vinnu eða skóla hefur fækkað frá árinu 2016.

Af þeim sem nota strætó segja 65% íbúa að strætóferðir megi vera tíðari og 56% segja að fargjaldið þurfi að vera lægra til þess að þjónustan bætist. Þeir sem nota almenningssamgöngur aldrei segja flestir, 36%, að tíðari ferðir þyrfti til að þeir myndu nota strætó og að leiðakerfið þyrfti að vera betra.

Fyrri greinÞórsarar fá sterkan framherja
Næsta greinDönsk þrenna í sigri Hamars