Þefskyn lögreglumanna leiddi til kannabisfundar

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í gær stöðvuðu lögreglumenn á Selfossi ökumann fólksbifreiðar til þess að kanna ástand og ökuréttindi hans. Lögreglumennirnir fundu mikla kannabislykt af manninum og játaði maðurinn neyslu kannabisefna.

Eitt leiddi af öðru og fóru lögreglumenn með manninn að heimili hans, þar sem þeir fundu sterka kannabislykt. Karlmaðurinn heimilaði leit á heimili sínu og framvísaði um leið nokkru magni af kannabisefnum. Við nánari skoðun fundu lögreglumenn svo kannabisræktun í kjallara hússins, sem karlmaðurinn gekkst við að eiga.

Um var að ræða nokkuð vel útbúna aðstöðu til kannabisræktunar þar sem voru 525 kannabisplöntur á mismunandi ræktunarstigum. Einnig kom í ljós að maðurinn hafði leitt rafmagn framhjá rafmagnsmæli.

Málið telst upplýst og á maðurinn von á kæru fyrir akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna, vörslu fíkniefna, framleiðslu kannabsefna, rof á innsigli rafmagnsmælis og þjófnaði á orku.

Fyrri grein„Náum að koma mjög miklu af fatnaði inn í hringrásarhagkerfið“
Næsta greinSelfoss með fullt hús