
Matarvagninn The Codfather hefur heldur betur slegið í gegn síðan hann opnaði á Selfossi fyrir ellefu dögum.
Frá fyrsta degi hefur vagninum verið ákaflega vel tekið af Sunnlendingum sem og innlendum og erlendum ferðamönnum. Um síðustu helgi tók vagninn svo þátt í götubitahátíðinni í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. The Codfather gerði sér lítið fyrir og hreppti annað sæti í flokknum götubiti fólksins en um þá kosningu sjá gestir hátíðarinnar. Fjörutíu matarvagnar tóku þátt í hátíðinni ár og er talið að um 90.000 manns hafi heimsótt hátíðina.
Eignendur The Codfather eru þau Alma Svanhild Róbertsdóttir, Hlynur Friðfinnsson og Fannar Geir Ólafsson. Matreiðslumaðurinn Andri Björn Jónsson kom einnig að því að þróa matseðilinn.
Sunnlenska.is hitti þau Ölmu og Hlyn í gær í gosmóðu og 22 stiga hita fyrir utan Hótel Selfoss, þar sem matarvagninn er staðsettur. Þau voru enn í sjöunda himni eftir vel heppnaða götubitahátíð.
Hópur fólks með ADHD
Hlynur segir að það hafi verið hálfgert slys að þau hafi opnað matarvagn. Alma tekur undir það og segir að þau séu einfaldlega svo hvatvís.
„Við heyrðum af þessum vagni, skoðuðum hann og keyptum hann,“ segir Alma og Hlynur bætir við; „Þetta er hópur af fólki með ADHD og hvatvísi er okkar aðalsmerki, myndi ég segja,“ og þau hlæja bæði.

Frábærar viðtökur frá fyrsta degi
The Codfather opnaði rétt fyrir Kótelettuna og var nánast stöðug röð við vagninn þá helgina. „Opnunarhelgin gekk bara mjög vel. Svo náðum við að troða okkur inn á götubitahátíðina á síðustu stundu og það gekk allt saman vel, þrátt fyrir að það hafi bara verið ákveðið með þriggja daga fyrirvara,“ segir Alma.
„Viðtökurnar hafa verið frábærar síðan við opnuðum. Við áttum ekki von á svona góðum viðtökum en okkur fannst þetta concept skemmtilegt, fiskur og franskar og okkur fannst vanta þannig stað á Selfoss. Og það hefur sýnt sig. Við ákváðum að byrja með frekar einfaldan seðil og svo getum við kannski frekar bætt við hægt og rólega,“ segir Hlynur.

Hefur séð The Godfather myndirnar 100 sinnum
Hjá The Codfather eru fjórir réttir á matseðli og heita þeir allir eftir persónum úr The Godfather þríleiknum. Nafnið á vagninum er einmitt vísun í bíómyndirnar ódauðlegu.
Aðspurð hvort þau séu miklir aðdáendur The Godfather svarar Hlynur því hiklaust játandi. „Alma var aftur á móti að sjá þessar myndir í fyrsta skipti um daginn,“ segir hann og hlær.
„Ég þurfti að að girða mig í brók og horfa á allar myndirnar. Ég þarf að vera með frasana og öll nöfnin á hreinu. Þetta eru sígildar myndir og margir frasar úr myndinni sem eldri kynslóðin eins og Hlynur kannast við,“ segir Alma og hlær og Hlynur bætir því við hann hafi séð þessar myndir að örugglega hundrað sinnum.
„Okkur fannst svolítið skemmtilegt að vera með dirty fries, Carlo og Fredo. Þetta eru svikararnir í myndunum. Þeir eru dirty. Við leikum okkur svolítið með þetta og við erum heldur ekkert að taka okkur alvarlega með þetta heldur, stundum má þetta alveg vera smá sleazy og hallærislegt,“ segir Hlynur.

Stolt af matnum
Sem fyrr segir hefur The Codfather fengið frábærar móttökur og er það ekki af ástæðulausu. „Við leggjum upp úr því að hafa gott hráefni, góðan mat. Við erum mjög stolt af matnum sem við erum að afgreiða núna og við munum halda áfram við að vanda okkur við það.“
„Vonandi halda Sunnlendingar áfram að koma. Codfather er góð viðbót við þessa flottu flóru sem er á Selfossi en hér er fullt af flottum stöðum. Okkur fannst vera pláss fyrir stað eins og Codfather,“ segir Hlynur.
„Fiskurinn er ekki í þessu venjulega orly degi sem fólk þekkir, hann er hjúpaður í svörtum Doritos, ásamt góðri kryddblöndu, þannig að hann er öðruvísi og er að fá mjög góða dóma og viðtökur,“ segir Alma en þess má geta að Don humarklemman, sem er djúpsteikur humar í brioche pylsubrauði, sló algjörlega í gegn á götubitahátíðinni.
„Við vildum vera með fisk sem er svolítið bragð af. Svo erum við líka með frábæra sósu sem er búin til hérna frá grunni og þetta vinnur vel saman,“ segir Hlynur.

Fylgja flæðinu
Hlynur og Alma segja að planið sé að hafa vagninn opinn allt árið. „Við erum samt svo ný í þessu að við tökum þetta bara einn mánuð í einu og svo fer þetta auðvitað eftir veðrinu í vetur,“ segir Hlynur.
„Vagninn er á hjólum og við erum ekki búin að festa hann þar sem hann er staðsettur núna. Við viljum hafa hann hérna í sumar og líka aðeins til kynnast vagninum og þessari tegund af rekstri. En við erum ekkert búin að útiloka það að við færum okkur einhvern tímann. Kannski verður þetta einhvern tímann drive through bíll, hver veit,“ segir Hlynur að lokum.

