Þáttaskil í starfsemi First Water

Ljósmynd/First Water

Mikilvæg þáttaskil urðu í starfsemi landeldisfyrirtækisins First Water í Ölfusi síðastliðinn þriðjudag þegar félagið hóf vinnslu og pökkun á 5 kg laxi til útflutnings á erlenda markaði.

First Water varð þá meðal fyrstu landeldisfyrirtækja á heimsvísu til að ná þessum áfanga en um er að ræða afar eftirsótta og verðmæta vöru á alþjóðamörkuðum. Þegar hefur öll framleiðslan verið seld til Bandaríkjanna og Evrópu.

Í sumar hóf First Water notkun á fyrstu 25 metra yfirbyggðu landeldistönkunum, og eru nú fjórir slíkir tankar af átta komnir í fulla notkun. Tilkoma þessara tanka gera félaginu kleift að framleiða lax í hæsta gæðaflokki og veita viðskiptavinum jafnt og stöðugt framboð allan ársins hring.

First Water hefur nýlega tekið í notkun vinnsluhús á hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn þar sem vinnsla á öllum afurðum First Water mun fara fram en þar verður hægt að vinna 20 þúsund tonn af slægðum laxi árlega.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water, segir vinnslu og pökkun á 5 kg. laxi mikilvæg tímamót fyrir félagið.

„Það hefur verið afar ánægjulegt að sjá hve vel laxinn hefur vaxið og dafnað í yfirbyggðum tönkum. Fyrstu laxarnir fóru í tankana í júlí síðastliðnum og nánast um leið mátti sjá framfarir í vaxtarhraða. Þetta hátæknilega eldisumhverfi er afrakstur mikillar vinnu starfsfólks First Water og er virkni yfirbyggðu tankanna betri en væntingar stóðu til,“ segir Eggert.

„Kaupendur okkar eru afar spenntir að fá þessa nýju hágæðaafurð. Það er mikil þörf á aukinni próteinframleiðslu á heimsvísu og First Water er nú í þeirri stöðu að vera eitt fárra fyrirtækja í heiminum sem getur getur boðið kaupendum 5 kg slægðan hágæðalax sem ræktaður er og unnin á umhverfisvænan hátt, allan ársins hring,“ bætir Eggert við.

Fyrri greinBragi gefur kost á sér áfram
Næsta greinSelfyssingar sterkari undir lokin