„Þakklát og ánægð“

Ásdís Ýr Aradóttir, verslunarstjóri og Helga Kristín Böðvarsdóttir eru komnar í jólaskap og hlakka til að taka á móti viðskiptavinum á jólaopnuninni. Ljósmynd/Jóhanna SH

Nú í nóvember fagnar verslunin ILVA á Selfossi eins árs afmæli en það er óhætt að segja að Sunnlendingar hafi tekið versluninni einkar vel síðan hún opnaði.

„Fyrsta árið okkar á Selfossi hefur gengið vonum framar og við erum þakklát og ánægð fyrir frábæra viðskiptavini á Selfossi og nágrenni. Það gleður okkur mikið að geta boðið upp á sérvalin vörumerki í bland við danska hönnun frá ILVA og greinilegt að bæjarbúar kunna að meta vörurnar sem við bjóðum upp á,“ segir Anna Soffía Árnadóttir, markaðsstjóri ILVA á Íslandi, í samtali við sunnlenska.is.

Klassísk dönsk hönnun
Anna Soffía segir að vinsældir ILVA hérlendis komi ekki á óvart þar sem Sunnlendingar sem og aðrir Íslendingar kunna vel að meta danska hönnun. „ILVA er dönsk húsgagnakeðja með glæsilegt úrval af vönduðum og vel hönnuðum húsgögnum. Vörumerkið er sterkt bæði í Danmörku og hér heima og er í stöðugri þróun í takt við tísku og strauma. Vinsældir ILVA koma engum á óvart enda klassísk dönsk hönnun sem eldist vel.“

„Langstærsti flokkurinn okkar er sófaflokkurinn, við erum með gott úrval af sófum á breiðu verðbili og geta flestir fundið draumasófann sinn í ILVA. Við leggjum mikið upp úr því að bjóða vandaða og fallega sófa, bæði sófa sem við eigum á lager og einnig sérpantaða eftir höfði hvers og eins.“

Verslun ILVA á Selfossi er komin í jólabúning. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Ostahlaðborð og súkkulaðimolar
Á morgun, fimmtudag, verða jólaljósin í Árborg tendruð og af því tilefni verða flestar verslanir með opið lengur. „Það verður jólakvöld hjá okkur í ILVA á Selfossi. Það verður lengri opnun og frábærir afslættir af öllum vörum. Vínkynning og ostahlaðborð frá MS, súkkulaðimolar frá Nóa Síríus og gjafapokar fyrir heppna viðskiptavini. Við getum ekki beðið eftir að taka á móti viðskiptavinum okkar á þessu flotta jólakvöldi,“ segir Anna Soffía og bætir því við að stelpurnar í ILVA á Selfossi séu komnar í mikið jólaskap.

„Þann 30. nóvember fögnum við svo eins árs afmæli verslunarinnar á Selfossi og bjóðum bæjarbúum í afmælisveislu með köku og tilheyrandi fjöri. Við mælum með að viðskiptavinir okkar fylgist með okkur á samfélagsmiðlum til að fá helstu fréttir og tilboð,“ segir Anna Soffa að lokum, þakklát fyrir góðar viðtökur.

Fyrri greinMennta- og barnamálaráðherra heimsótti Árborg
Næsta grein„Fannst vanta vettvang fyrir listafólk til að vera sýnilegra“