„Það versta í þessu er óvissan“

Ljósmynd/Flúðir um Versló

Búið er að aflýsa fjölskylduhátíðinni Flúðir um Versló vegna fjölgunar kórónuveirusmita í samfélaginu og óvissunni sem því fylgir.

„Þessi ákvörðun er okkur þungbær en niðurstaðan er þessi. Það versta í þessu er óvissan. Við vitum ekkert hvað gerist á næstu dögum og við þurfum að kosta miklu til í skipulagningu í algjörri óvissu. Svo viljum við líka sýna samfélagslega ábyrgð. Við erum með viðkvæma hópa hér í Hrunamannahreppi og í uppsveitunum og við viljum ekki stuðla að því að það safnist saman meira af fólki hér en í eðlilegu árferði. Við vitum að það verður mikið af fólki á svæðinu þó að það verði engin skipulögð dagskrá á okkar vegum,“ sagði Bessi Theodórsson, forsvarsmaður hátíðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

„Við reynum bara að koma sterkari inn á næsta ári,“ segir Bessi.

Fyrri greinStrengir á ferð um Suðurland
Næsta greinSlasaður göngumaður við Botnssúlur