„Það var eitthvað alvarlega rangt að gerast í líkamanum“

Ásta Erla Jónasdóttir á heimili sínu á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Sunnlendingurinn Ásta Erla Jónasdóttir hefur vakið mikla athygli á Instagram frá því að hún stofnaði síðuna sína, natturulegheilsuvegferd, fyrir tveimur vikum.

Á síðunni segir Ásta Erla á einkar einlægan og persónulegan hátt frá veikindum sem hún hefur glímt við vegna brjóstapúða sem hún fékk fyrir 14 árum og hvaða leiðir hún hefur farið til að endurheimta heilsuna sína á ný. Hún ákvað að segja frá sinni reynslu í von um að það hjálpi fleiri konum í sömu sporum.

Grét næstum því daglega
„Í kjölfar langvarandi veikinda þar sem læknastéttin hafði ekki svör fyrir mig lengur, ákvað ég að reyna að finna rót vandans uppá eigin spýtur. Ég lagðist í mikla rannsóknarvinnu og endaði með að lesa mig til um breast implant illness. Þegar ég loksins komst út úr þeirri afneitun hvað brjóstapúðar eru eitraðir og væru að valda mér miklum skaða þá grét ég næstum daglega,“ segir Ásta Erla Jónasdóttir í samtali við sunnlenska.is.

Ásta Erla segir að það hafi verið ótrúlega sársaukafullur tími þegar hún fór að sjá og viðurkenna fyrir sjálfri sér hvað hún væri búin að gera líkama sínum. „Ég fór úr því að elska á mér brjóstin yfir í að hata þau, þau voru rótin, engin veikindi lítil eða stór eru þess virði að vera með stór brjóst. Frekar vil ég engin brjóst og vera lífsglaða, heilsuhrausta gamla ég aftur. Nítján ára ég vissi bara ekki betur, þetta var tískubóla þá og upplýsingarnar voru engar miðað við í dag. Þöggunin og feluleikurinn varðandi skaðsemi brjóstapúða er hryllilegur,“ segir Ásta Erla sem býr á Selfossi ásamt eiginmanni og dóttur.

Ásta Erla ásamt eiginmanni sínum, Pétri Viðari Kristjánssyni og dóttur þeirra, Lovísu Glóð.

Málaferli í gangi
„Í dag er bandaríska lyfjaeftirlitið að reyna að berjast fyrir því að fá viðvörunar merkingar á sílikonpúða rétt eins og þeir börðust fyrir merkingum á sígarettupökkum. Ég er að reyna að ná til fólks og vara það við, þetta er grafalvarlegt mál og er búið að valda hundruð þúsunda kvenna um allan heim alvarlegum veikindum og sumum dauða,“ segir Ásta Erla.

Hún fékk PIP púða árið 2008 og lak vinstri púðinn. „Þetta eru púðar sem eru bannaðir í dag. Ég, ásamt fjölda annarra kvenna, erum ennþá í málaferlum vegna þessa. Í þessum PIP púðum var iðnaðarsílikon og ýmis skaðleg efni. Í mörgum PIP púðum fannst mygla þegar þeir voru teknir út og það hafa greinst illkynja æxli í himnum utanum PIP púða,“ segir Ásta Erla og bætir því við að þegar líkaminn fær aðskotahlut þá myndi hann himnu utan um hlutinn, til að verja sig og þar getur ýmislegt grasserað.

Árið 2013 lét Ásta Erla svo fjarlægja PIP púðana. „En himnan var ekki öll tekin, bara þar sem púðinn hafði lekið. Í sömu aðgerð fæ nýja púða, sem heita Mentor. Það kemur svo í ljós að þeir eru engu skárri en PIP. Þannig að í 14 ár hef ég verið með baneitraða púða upp við hjartað mitt og lungu.“

Þurfti að hætta að vinna 24 ára gömul
Ári eftir að Ásta Erla fékk fyrstu púðana fór hún að finna fyrir hrakandi heilsu. „Ég fór oftar í veikindaleyfi frá vinnu en áður. Árið 2010 byrja fæturnir að bólgna mikið ég fer til bæklunarlæknis sem gerir þá aðgerð á beini hjá litlu tá. Verkirnir minnka ekkert við það og andlega heilsan mín er alls ekki góð. Árið 2012 greindist ég með liðagigt í tám, ökklum, hnjám og mjöðmum og þegar ég hitti gigtarlækni þá voru tvær tær farnar úr lið og snúið upp á báða ökkla. Ég var orðið alltaf í þykkum ökklahlífum og fast reimuðum gönguskóm til að reyna að ganga, sárkvalin en harkaði af mér því ég á auðvitað ekki að vera að þessu væli svona ung. Andlega líðanin var fjarri því að vera góð. Ég fór á krabbameinslyf og aukaverkanirnar af því lyfi höfðu hræðileg áhrif á mig. Ég þurfti að hætta að vinna 24 ára gömul og fór á endurhæfingarlífeyri. Það var ekki til að bæta sjálfstraustið og ég fékk ekki mikinn skilning frá samfélaginu, verandi svona ung.“

Í framhaldinu fékk Ásta Erla stera og segir hún að henni hafi þá liðið æðislega í smá tíma. „Síðan kemst ég á ónæmisbælandi líftækni lyf þar sem ég sprauta mig einu sinni í mánuði og líf mitt varð allt annað gigtarlega séð og ég gat farið aftur að vinna. Árið 2013 kemur PIP málið upp. Annar púðinn lak hjá mér. Ég skildi skaðsemi þess en ég tengdi það ekki við önnur veikindi.“

Mánaðarskammtur af lyfjum sem Ásta Erla tók áður að staðaldri. Í dag er hún næstum lyfjalaus.

Erfitt að tala um ófrjósemina
Ásta Erla segir að verkir og einkenni eftir brjóstapúðaveikina hafi valdið því að hún hafi ekki getað lyft lóðum, sofið á maganum, slegið með golfkylfu og fengið doða í fingurna svo fátt eitt sé nefnt. Þetta séu þó bara smámunir því nú tók við erfiðasti tíminn í lífi hennar. „Ég fékk blöðrur á eggjastokka, leghálskrabbamein og fór í gegnum fósturmissir eftir fósturmissi, alls átta sinnum. Skömmin og feluleikurinn í kringum það… þetta var hræðilegur tími sem er svolítið í móðu núna. Andleg líðan var mjög slæm, ég var þunglynd, svaf ekkert, upplifði kvíðaköst, sjálfsvígshugsanir og maníu. Ég myndi ekki óska þess upp á minn versta óvin. Eftir heimsóknir á geðdeild var það sameiginleg ákvörðun okkar hjóna að ég færi í ófrjósemisaðgerð þar sem ég sæi ekki fram á að lifa af annan fósturmissi andlega séð og það var mikil blessun fyrir mig á þeim tíma,“ segir Ásta Erla.

Ófrjósemin er viðkvæmt mál að ræða fyrir Ástu Erla. „Mér finnst enn þann dag í dag erfitt að tala um ófrjósemina, því allir hafa svo miklar skoðanir á öllu og það er mjög erfitt á fá frjósemisráð frá fólki sem hefur aldrei gengið í gegnum þetta sjálft. Það er hreint út sagt mjög særandi. Fólk getur alveg látið manni líða eins og ég hafi ekki gert nóg, en ég gerði meira en nóg miðað við mína getu á þeim tíma. Þannig að ég hef haldið mér frá því eins og ég mögulega get að ræða ófrjósemina við fólk.“

„Við vorum einnig búin að setja okkur í samband við nokkur pör sem fóru í glasafrjóvgun og heyra af færibanda vinnubrögðum þar. Það var ekki beint heillandi og ég var ekki tilbúin í að missa annað fóstur og fá svo „já, já við reynum aftur seinna“.“

Fór að birta til eftir viðtal hjá Íslenskri ættleiðingu
„Það sama ár, 2017, förum við í okkar fyrsta viðtal hjá Íslenskri ættleiðingu og þá var eins og það færi fyrst að birta til hjá mér. Allt í einu stóð ekki allt og féll með því hvað ég væri ómöguleg manneskja heldur var leið fyrir okkur að koma jafnfætis inn í foreldrahlutverkið. Okkur fannst ættleiðing strax vera svarið fyrir okkur.“

„Dóttir mín er ósk minna drauma. Á meðan við vorum í umsóknarferlinu og að bíða þá héldu veikindin mín áfram og lífernið mitt var ekki gott heldur, þannig ég var komin í vítahring. Í nóvember 2019 fæ ég síðan mjög alvarlegt gigtarkast. Þegar ég sprauta mig með ónæmisbælandi þá er eins og sprautan hafi öfug áhrif á mig. Ég fæ mikinn verk í nýrum, hnjáliðurinn verður tvöfaldur og kjálkinn fer úr lið.“

Lovísa Glóð er svarið við draumum Ástu Erlu.

Lyfin hættu að virka
Í framhaldinu þurfti Ásta Erla að leggjast inn á sjúkrahús en í fyrstu var talið að um blóðsýkingu væri að ræða og fékk ég tvenns konar sýklalyf í æð í nokkrar vikur. „Það kemur síðan í ljós að gigtarlyfin voru hætt að virka. Ég fékk ný gigtarlyf, sem virkuðu hvergi nærri eins og hin sem ég hafði verið á áður. Þannig að ég hafði um tvenns konar verki að velja; alvarlega gigtarverki eða aukaverkanir af líftæknilyfjunum. Af tvennu illu var seinni kosturinn bærilegri.“

„Líkaminn var ein brunarúst eftir sýklalyfin og þá byrjuðu að koma upp allskonar mataróþol sem höfðu ekki verið áður. Ég fór aftur á stera og komst aftur til vinnu tveim mánuðum seinna. Ég næ að halda mér þokkalegri þar til fyrir einu og hálfu ári síðan, þegar ég var stödd út í Tékklandi að sækja dóttir mína. Í þeirri ferð fæ ég alvarlegt gigtarkast og fer á bráðamóttöku. Þar grípur læknirinn harkalega í höfuðið á mér og stingur nál á bólakaf í augað á mér, án allrar deyfingar, til að koma sterum í lithimnuna vegna bólgu.“

„Sjokkið var mikið. Það var eins og eitthvað rynni upp fyrir mér, öll veikindin mín síðustu árin runnu saman í eitt og ég fékk gjörsamlega nóg. Ég hugsaði hvað er að gerast hérna? Lyfin mín virka ekki vel og þau eru líka að valda mér annarskonar vanlíðan. Læknastéttin hefur engin svör fyrir mig. Það er eitthvað alvarlega rangt að gerast í líkamanum mínum og ég verð að reyna að finna orsökina sjálf. Það getur ekki verið að ung stelpa eins og ég sé að eiga við svona mörg alvarleg veikindi,“ segir Ásta Erla en hún er uppalin á Stokkseyri og hefur alltaf verið heilsuhraust, stundað íþróttir frá barnsaldri og borðað hollan heimilismat.

„Fyrsta er fyrir einu og hálfu ári síðan, miðja er daginn fyrir aðgerð og síðustu tók ég núna áðan s.s. tveim vikum eftir aðgerð,“ segir Ásta Erla.

Gigtarlæknirinn hló að henni
Í kjölfarið fór Ásta Erla að afla sér allskonar upplýsinga um heildræna heilsu. „Ég fann fullt af náttúrulegum lausnum sem hafa hjálpað mér meira en mig hafði grunað og ég er hætt á öllum lyfjum nema einu og þarf það miklu sjaldnar en áður. Ótrúlegt alveg. Gigtarlæknirinn minn hló að mér þegar ég sagðist ætla að hefja þessa vegferð. Ég komst samt alltaf bara ákveðið langt í náttúrulegu vegferðinni, þar til ég lenti á næsta vegg. Það var þá sem ég datt niður á að rannsaka breast implant illness fyrir alvöru.“

„Í dag er búin að taka fortíðina í sátt og geng bjartsýn inn í framtíðina, ég stefni að því að vera alveg lyfjalaus þegar ég verð fertug í mínu besta andlega og líkamlega formi, ég hef sex ár í undirbúningsvinnu. Dóttir mín hefur verið drifkrafturinn minn í þessari vegferð, hún er það besta sem hefur komið fyrir mig, enda er árangurinn ótrúlegur á stuttum tíma.“

Skömmu eftir aðgerðina sem hún fór í 17. mars. Á myndinni má sjá dren með sogi sem eru fyrir blóðvökvann sem myndi annars safnast upp undir vöðva. Uppskurður á brjóstvöðva er heilmikil aðgerð og verður Ásta Erla þrjár vikur frá vinnu.

Hitti loksins lækni sem hlustaði
Það var svo þann 17. mars síðastliðinn sem Ásta Erla lét taka púðana úr brjóstunum. „Aðgerðin gekk vel, hún lengdist aðeins því himnan var mjög föst á efstu rifbeinum enda er það gamla PIP himnan. Sérfræðingur í brjóstaskurðlækningum tók púðana og fjarlægði alla himnuna með, en það er mjög mikilvægt þegar púðarnir eru teknir að himnan sé tekin líka, þar sem hún geymir mikið af eitri. Hann útskýrði hvað þetta er mikið inngrip, það þarf að brenna himnuna í burtu frá rifbeinum og í verstu tilfellum getur komið gat á lunga ef hún liggur þétt milli rifbeina.“

Ásta Erla segir að læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina sé fyrsti læknirinn sem hún fer til sem raunverulega hlustaði, skoðaði og upplýsti hana almennilega. „Mig hryllir við því að hugsa til þess að 19 ára ég fékk fimmtán mínútna viðtal við lýtalækni, sem talaði eins og þetta væri ekkert mál. Ég var engan veginn upplýst um hvað inngripið væri mikið á þeim tíma. Þvílík fórn fyrir útlit. Ég óska þess að dóttir mín fái að alast upp í breyttu samfélagi og ég ætla að leggja mitt af mörkum fyrir hana.“

Mikill andlegur léttir að vera laus við púðana
Tvær vikur eru síðan Ásta Erla fór í aðgerðina og er hún enn að jafna sig. „Uppskurður á brjóstvöðva er heilmikil aðgerð og ég er þrjár vikur frá vinnu. Eins og er þá finn ég að mestu andlegan létti. Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum. Loksins getur ónæmiskerfið rétt sig af og farið að starfa rétt. Fram undan hjá mér er að halda áfram á náttúrulegri heilsuvegferð og deila framförum mínum á Instagram í þeirri von að vera innblástur fyrir aðrar konur. Ég ætla að vera breytingin sem ég vil sjá í samfélaginu.“

„Ég er alveg búin að taka u-beygju í mataræði og fór aftur til náttúrunnar. Hún er svarið okkar alltaf, við öllu. Hún hefur alltaf reynst okkur vel og reynir ekki að svíkja okkur. Þegar við förum aftur til náttúrunnar þá finnum við hvað hún og líkaminn vinna vel saman. Líkaminn getur læknað sig sjálfur, ef að líkaminn getur búið til barn þá getur hann læknað sig líka. Þegar við erum ekki full af eiturefnum, skít og slæmum hugsunum og hjálpum frumunum okkar að fá rétta næringu þá getur hann allt.“

Myndin til vinstri er frá því í janúar síðastliðnum – myndin til hægri er tekin átján dögum eftir aðgerðina.

Ávextir og grænmeti geyma mikinn lækningarmátt
Ásta Erla einblínir á hreina fæðu til að hreinsa líkamann af eiturefnum og eru þar ávextir og grænmeti í aðalhlutverki. „Ég borða mjög mikið af ávöxtum og grænmeti, ég geri hreina djúsa heima, fæ mér boost í hádeginu og eina máltíð á kvöldin hún er fjölbreytt og holl. Ég held mig eins og ég get frá öllum mjólkurvörum, glúteini, e-efnum, skyndibita og borða mjög litla fitu aðeins hreina og bara á kvöldin.“

„Ég er búin að fræðast mikið og lesa mig til og það er magnað hvað náttúrulegur ávaxtasykur og insúlínið okkar vinna vel saman gegn heilsufarsvandamálum okkar þó að það sé búið að telja okkur trú um annað. Ég er búin að afsanna margar mýtur úr læknastéttinni. Ávextir og grænmeti eru svarið við öllu og geyma mikinn lækningamátt, ég þekki það sjálf á eigin skinni.“

„Það var ekki fyrr en ég sneri baki við læknastéttinni að ég fékk loksins almennileg svör. Heildræn heilsa er ekki að reyna að hafa af þér pening henni er raunverulega annt um þig. Ég er með mikla stíflu í sogæðakerfinu þannig ég keypti mér nýverið infrarauðan saunaklefa sem mun setja hreinsunarferlið mitt á annað plan. Vorið er líka að koma þá get ég farið á trampólínið en það er mjög góð hreyfing fyrir sogæðakerfið okkar. Ég er einnig að skoða bætiefni sem hjálpa líkamanum að losa sig við þungmálma. Kerfið mitt er stíflað og stútfull af eiturefnum. Ég horfi á ferlið mitt sem vegferð til nýs lífs. Þrjátíu ár af röngu mataræði er ekki rétt af á einum mánuði. Mér líður líka bara svo vel að ég mun aldrei fara til baka.“

Ekki nóg að borða bara hollt
Ásta Erla notast við heildræna nálgun til að endurheimta heilsuna. „Það er ekki nóg að borða bara hollan mat, því líkaminn okkar geymir öll sár. Þess vegna hef ég farið í djúpa innri barna vinnu og er einnig þakklátur meðlimur Al-anon. Andlega hliðin okkar hefur mikið að segja um líkamlega líðan og hún verður einnig mitt lífstíðarverkefni. Hugur, líkami og sál er svarið fyrir hamingjunni. Ég get ekki þagað yfir þeim heilsufarslega ávinningi sem það hefur að borða meiri ávexti. Heilaþokan, slenið, pirringurinn, áhugaleysið og orkuleysið er allt saman farið og allt í einu get ég hugsað skýrt og hef miklu meiri orku en nokkurn tímann og lífsgleðin, maður minn! Kílóamissir hefur bara verið einhver bónus miðað við andlega líðan.“

Ákvörðunin þarf að vera upplýst
Aðspurð hvað hún vilji segja við konur sem eru enn með púða eða eru að spá að fá sér púða segir Ásta Erla að hún óski þessi allra mest að stelpur fái að taka upplýsta ákvörðun. „Lestu þér til um breast implant illness. Ég get alveg lofað ykkur því að þessar hundruð þúsundir kvenna eru ekki allar ímyndunarveikar. Skoðaðu á netinu hvernig aðgerðin er framkvæmd hvernig þú ert skorin upp og skurðurinn klemmdur upp, til að troða aðskotahlut inn í líkamann á þér, sem inniheldur tugi skaðlegra efnasambanda, sama hvort þeir eru sílikon eða saltvatnspúðar.“

Brjóstapúðarnir hafa oftar en einu sinni komið Ástu Erlu á sjúkrahús.

Margar konur í afneitun með sín veikindi
„Ég vildi óska þess að ég hefði lesið mig betur til og gert mér grein fyrir hvað ég væri setja í líkamann minn og hverju ég væri að fórna. Margar konur sem eru með púða í dag segjast ekki vera með nein einkenni, en kannski orðnar samdauna þeim. Ég var ein af þeim og ég var upptekin við að lækna aðra sjúkdóma sem í grunninn púðarnir voru að valda, án þess að nokkurn tímann rekja það til þeirra. Ég var í algjörri afneitun – talandi um brotna og brenglaða sjálfsmynd.“

Ásta Erla segir að alvarleg einkenni geti líka komið fram árum seinna. „Púðarnir setja gífurlegt álag á ónæmiskerfið sem hefur ekki undan að halda niðri öðrum sjúkdómum sem hann ætti kannski annars auðvelt með. Það er mikil vakning vegna breast implant illness og fleiri og fleiri konur eru að fjarlægja púðana. Sögur þeirra eru ótrúlegar, þær hafa öðlast nýtt líf. Þær tala allar um að þær hafi engan veginn verið meðvitaðar um neikvæð áhrif púðanna, fyrr en eftir að þær höfðu fjarlægt þá.“

„Þær sem finna einkenni af púðum ná ekki að mynda fulla himnu utan um púðann eða þá að himnan er of þunn eða hún rofnar. Þær konur sem finna engin einkenni mynda sterka himnu utan um allann púðann. Það þýðir ekki að eitrið sé eitthvað minna. Þetta grasserar bara í himnunni í staðinn fyrir að fara í liðina á sumum. Það er sannað að allir púðar leka eiturefnum þó þeir séu ekki rofnir því púðarnir svitna í okkar líkamshita, svitna eiturefnum og þungmálmum í kerfið okkar.“

Sannleikurinn sár en hann þarf að heyrast
Að sögn Ástu Erlu hafa púðarnir ótvíræð áhrif á æxlunarfæri kvenna. „Skaðsemi brjóstapúða á æxlunarfæri kvenna og fóstur er 100% staðfest. Prótín í heila barna þroskast ekki eðlilega og það er verið að reyna að banna púðana í Hollandi vegna þess. Ég er að reyna að vekja ykkur því þetta er alvarlegt mál! Ég veit að það er sárt að heyra þetta, því ég hef verið þar sjálf. Það sem ég elskaði brjóstin mín mikið og var ekki tilbúin að hlusta. Í dag kýs ég heilsuna fram yfir brjóst, ég kýs lífsgleði og langlífi með dóttur minni og ef ég er orðin of upptekin af útlitinu mínu þá hreinlega finnst mér að ég verði frekar að finna mér eitthvað áhugamál.“

Ásta Erla vill sjá meira heilsuhreysti í samfélaginu og þá sérstaklega hjá ungu fólki. „Tölur um hrakandi heilsufar eru sláandi á aðeins örfáum árum. Ég vil einnig sjá meiri náungakærleik í mínu samfélagi og ég veit að ef fleira fólk færi að borða meiri ávexti þá væri að samfélaginu í heild til hagsbóta. Mér þætti gaman að sjá annað fólk byrja að vakna og byrja að lifa og líða betur. Það þýðir færri sjúklingar í kerfinu okkar.“

„Það er bara eitt ár á milli þessara mynda. Ég er í sjokki! 13 kg farin en skítt með þau ég vil heilbrigði! Ég er næstum lyfjalaus og hef aldrei á ævi minni liðið eins vel andlega og líkamlega,“ segir Ásta Erla.

Deilir margvíslegum fróðleik með fólki á Instagram
Sem fyrr segir hefur Instagramsíða Ástu Erlu, natturulegheilsuvegferd, heldur betur slegið í gegn síðan hún stofnaði hana fyrir tveimur vikum. „Viðbrögðin voru gríðarlega mikil og miklu meiri en ég bjóst við. Fullt af konum hafa sett sig í samband við mig og þakkað fyrir að ég sé að vekja athygli á breast implant illness.“

„Á Instagramsíðunni minni er ég að fræða fólk um sannleikann um ávexti og hvernig líkaminn raunverulega starfar, þvert á móti þeim ranghugmyndum sem okkur hefur verið sagt. Ég er líka með í highlights sem heitir ávaxtaspjallið og þvagspjallið – mæli með að fólk kíki á það. Auk þess er ég með helling af fróðleik um breast implant illness í highlights á síðunni minni fyrir áhugasama, þar getur þú lesið um eiturefnin í púðunum t.d. þau efni sem hafa verið tilkynnt en eru ennþá í púðunum undir nýju nafni.“

„Einnig er ég starfandi markþjálfi, mér finnst það mín köllun að hjálpa öðrum því sama hversu mikið myrkrið er í lífinu, þá er ljósið alltaf skammt undan. Ég þekki það sjálf,“ segir Ásta Erla að lokum en fyrir áhugasama er hægt að finna upplýsingar um hana á astaerla.is.

Fyrri greinÞín skoðun skiptir máli!
Næsta greinGrænn auðlindagarður í Reykholti