„Það var bara að hrökkva eða stökkva – og við stukkum“

Vigfús og Christine, eigendur Byrja, voru í óða önn að leggja lokahönd á staðinn þegar blaðamann sunnlenska.is bar að garði. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Næstu helgi mun nýr veitingastaður, Byrja, opna í Krónuhúsinu við Austurveg á Selfossi. Veitingastaðurinn, sem er svokallaður morgunverðastaður, er í eigu hjónanna Vigfúsar Blæs Ingasonar og Christine Rae.

„Við erum búin að vera að hugsa þetta í mörg ár, að það vanti morgunverðarstað á þetta svæði. Christine er frá Kanada þar sem svona morgunverðar-diner stemning er rótgróin í samfélaginu og bæjarbúum þykir vænt um veitingastaðina og það er nákvæmlega það sem við viljum gera,“ segir Vigfús í samtali við sunnlenska.is.

„Eftir að við eignuðumst börn þá sáum við líka að það vantaði stað þar sem gott er að fara með börnin, þar sem þau geta leikið sér og maður getur mögulega borðað matinn sinn á meðan hann er heitur. Við heyrðum af því að þetta fína húsnæði væri að losna, kynntum okkur möguleikana og komumst að þeirri niðurstöðu að þetta pláss er frábært fyrir svona rekstur. Það var bara að hrökkva eða stökkva – og við stukkum.“

Eru með gott fólk í kringum sig
Vigfús segir að undirbúningur við að standsetja húsnæðið hafi gengið vel en þau fengu það afhent í desember síðastliðnum. „Fyrri rekstraraðilar stóðu vel að hönnun og skipulagi sem hentar okkar rekstri en auðvitað eru aðrar áherslur. Sérstakt barnasvæði verður á staðnum, breytt skipulag er í afgreiðslu og eldhúsi og við erum að bæta við borðum og stólum.“

„Við Christine eigum þetta saman en við höfum mjög gott fólk í kringum okkur sem hefur hjálpað okkur endalaust. Það er ekki hægt að fara í svona verkefni án þess að fá aðstoð.“

Gott að byrja daginn á Byrja
Byrja opnar klukkan sjö á morgnana á virkum dögum en klukkan átta um helgar. „Við leggjum áherslu á fjölskylduvænan veitingastað og afslappað andrúmsloft. Sérstök áhersla er á morgunmat og hádegismat í diner stíl. Gott kaffi, úrval af óáfengum drykkjum og auðvitað kaldur á krana og léttvín.“

„Við vonumst til þess að fólk byrji daginn hjá okkur og njóti þess að borða á staðnum eða taki með sér í bílinn eða í vinnuna. Nafnið Byrja lá beinast við sem nafn á staðnum.“

Kærkomin viðbót í veitingaflóruna
Vigfús segir að það hafi komið fólkinu í kringum þau svolítið á óvart þegar það frétti að þau hjónin væru að fara að opna veitingastað. „Þau hrifust þó strax af hugmyndinni og eru sammála um að þetta sé kærkomin viðbót í veitingaflóruna hér á Selfossi. Gangandi vegfarendur reka oft inn nefið til að forvitnast og viðbrögðin frá þeim hafa verið frábær.“

„Endilega finnið okkur á samfélagsmiðlum og kíkið á byrjaselfoss.is, þar verður hægt að panta á netinu. Við verðum með sérstakan take-away matseðil. Sjálfur hef ég verið að keyra í bæinn í vinnu undanfarin ár og mikið hefði ég verið til í að geta gripið með mér gott kaffi og morgunmat í bílinn eldsnemma á morgnana,“ segir Vigfús að lokum.

Morgunverðarstaðurinn Byrja er staðsettur í Krónuhúsinu að Austurvegi 3-5 á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinVel heppnuð stækkun á grunnskólanum
Næsta greinDagmar Sif valin í úrvalshóp FRÍ