„Það hafa oft verið óvæntir sigurvegarar“

Frá kökukeppninni í fyrra. Ljósmynd/Ísak Eldjárn

Kökukeppni Kaffi Krúsar og Konungskaffis verður haldin næstkomandi sunnudag klukkan 12:00 í Konungskaffi á Selfossi.

Keppt verður annars vegar um bestu osta- og skyrkökuna og hinsvegar um bestu brauðtertuna. Þar skiptir bæði bragð og útlit máli en bragðið vegur þó þyngra.

Kaffi Krús hefur staðið fyrir osta- og skyrkökukeppni síðan 2014. Í fyrra var svo í fyrsta sinn sameiginleg keppni með Konungskaffi og var ákveðið að bæta við brauðtertukeppni við gífurlega góðar undirtektir.

Allir geta tekið þátt í kökukeppninni en til að vera með þarf fólk að skrá sig inn á kokukeppni.is. Þar má finna skráningarlink með öllum helstu upplýsingum. Fólk má senda inn ostaköku, skyrköku eða brauðtertu og eins er fólki velkomið að skila inn fleiri en einni köku.

Mikil og góð stemning í kringum keppnina
Í fyrra tóku sextán kökur þátt og var það mál manna að keppnin hefði bæði verið vel heppnuð og skemmtileg og skapaðist góð stemning í kringum hana. Aðkomufólk sem átti leið hjá Konungskaffi þar sem keppnin var haldin spurði heimamenn hvort þetta væri alltaf svona á sunnudögum á Selfossi.

Sunnlenska.is hitti Tómas Þóroddsson hjá Kaffi Krús og Silju Hrund Einarsdóttir hjá Konungskaffi í sólinni í miðbæ Selfoss í dag. Þau voru ákaflega vel stemmd fyrir sunnudeginum og búast við hörkukeppni.

Tommi á Krúsinni og Silja í Konungskaffi nutu sín vel í sólinni í dag. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„Það kom á óvart hvað það tóku margir þátt í fyrra og hvað það var mikil stemning. Og það er enn meiri stemning fyrir keppninni í ár. Við erum búin að fá fyrirspurnir frá fólki núna í nokkrar vikur, þar sem þar spyr hvernig og hvar það getur skráð sig. Fólk er að hringja og senda skilaboð, það ætlar alls ekki að missa af keppninni í ár,“ segir Silja.

„Ef það eru einhverjir sem eru að veltast með það hvort þeir eiga að taka þátt þá hvetjum við þá bara til að kýla á það. Þetta er ótrúlega gaman,“ segir Silja og Tómas bætir við: „Það hafa oft verið óvæntir sigurvegarar. Ein hefur unnið þrisvar, Hildur Lúðvíksdóttir. Það er reyndar gaman, af því að sonur hennar er byrjaður að vinna sem kokkur á Kaffi Krús. En já, stemningin er góð og menn eru byrjaðir að æfa sig fyrir keppnina. Við fréttum til dæmis af því að krakkarnir í Flóaskóla séu að æfa sig og þar er mikið keppnisfólk á ferðinni,“ segir Tómas.

Vegleg verðlaun
Silja og Tómas segja að verðlaunin séu vegleg. „Það fá allir sem taka þátt 10.000 króna gjafabréf frá Kaffi Krús og annað frá Konungskaffi. Svo verða vegleg aðalverðlaun sem verða tilkynnt á sunnudaginn.“

„Vinngingskökurnar verða svo til sölu í ákveðinn tíma. Brauðtertan verður þá hér á Konungskaffi og ostakakan á Kaffi Krús. Vinningsbrauðtertan var í boði hjá okkur allt síðasta sumar og var mjög vinsæl hjá okkur,“ segir Silja og bætir því við að ferðamönnum finnist spennandi að smakka verðlaunaða brauðtertu.

Jessica Thomasdóttir átti vinningsbrauðtertuna í fyrra. Ljósmynd/Ísak Eldjárn

Ef veður leyfir má gera ráð fyrir að keppnin verði utandyra eins og í fyrra. „Veðurspáin er góð fyrir sunnudaginn. Tíu stiga hita og 5 metrar á sekúndu. Það er ekki gott að hafa brauðtertur í 20 stiga hita. Ostakökurnar myndu líka bráðna í of miklum hita,“ segir Tómas kátur að lokum.

Gert er ráð fyrir að keppnin standi frá 12:00 til 14:00. Öllu kökum og tertum ber að skila klukkan 11 sama dag. Áhugafólk um góðar brauðtertur og osta- og skyrkökur er hvatt til að kíkja við.

Í dómnefnd verða:
Ragnar Freyr Ingvarsson – Læknirinn í eldhúsinu
Anna Árnadóttir – Stofnandi Kaffi Krúsar
Torfi Ragnar Sigurðsson – Hæstaréttarlögmaður og fulltrúi sýslumanns
Valdimar Bragason – Fjölmiðlamaður
Kristinn Geir Pálsson – Gullmerkishafi KKÍ
Árdís Birgisdóttir – Konditornemi
Guðmundur Karl Sigurdórsson – Matgæðingur
Ída Sofia Grundberg – Kökusérfræðingur

Facebook-viðburður keppninnar

Silja í Konungskaffi þar sem kökukeppnin verður haldin. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinMalbikað í Flóanum á miðvikudaginn
Næsta greinHERE kortleggur vegi landsins