Eyrbekkingurinn Elín Birna Bjarnfinnsdóttir er einn öflugast plokkari landsins.
Sunnlendingar hafa eflaust margir tekið eftir Elínu Birnu úti í vegkanti eða annars staðar að tína rusl og hefur hún verið dugleg að deila afrakstrinum á samfélagsmiðlum. Sést þá berlega hversu mikið rusl liggur úti í náttúrunni og hversu miklu munar um öfluga plokkara eins og Elínu Birnu.
Allt þetta gerir Elín Birna í sjálfboðavinnu og hefur hún staðið að öllum kostnaði sjálf, eins og til dæmis að kaupa ruslapokana sem ruslið fer í. Húsasmiðjan á Selfossi ákvað að leggja sitt af mörkum í að styðja þessa öflugu konu með því að gefa henni fatnað, skó, ruslapoka og fleira.
„Við erum að gefa Elínu sýnileika- og hlífðarfatnað svo að hún sjáist betur í umferðinni við það frábæra starf sem hún er að vinna fyrir okkur öll í sveitarfélaginu og utan þess. Þetta er ekki bara að taka til, þetta er umhverfisvænt. Við viljum passa að Elín sjáist vel þannig að hún lendi ekki í óhappi í öllu þessu starfi sem hún er að vinna,“ segir Sverrir Einarsson, verslunarstjóri Húsasmiðjunnar á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.
„Við gefum henni líka 200 ruslapoka, sem dugar henni kannski eitthvað fram á haustið, því að það er náttúrulega alveg ótækt að hún sé að kosta þetta sjálf,“ bætir Sverrir við.
Hvetja önnur fyrirtæki til að taka þátt
Guðrún María Hafþórs, aðstoðarrekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Selfossi, hvetur önnur fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum, bæði við að styðja Elínu og svo við að halda umhverfinu hreinu. Þess má geta að Húsasmiðjan hlaut nýverið umhverfisverðlaun Árborgar fyrir fallegasta fyrirtækið á Selfossi.
„Okkur langar að fá fleiri fyrirtæki með okkur í lið. Bæði að taka til í kringum sig og þess vegna bjóða fram starfsfólk, ef það á starfsfólk á lausu, til að aðstoða Elínu við plokkið. Bara allir að hjálpast við að halda snyrtilegu í kringum okkur.“

Fer með hátt í 40 ruslapoka á viku
Elín Birna var vonum ánægð með gjafirnar frá Húsasmiðjunni. „Ég er bara rosalega þakklát fyrir þetta allt saman. Ég farið í hátt í 30-40 ruslapoka á viku. Ég hef verið að kosta þetta sjálf en ég sé alls ekki eftir því, mér finnst bara frábært að ég nenni þessu,“ segir Elín Birna og hlær.
„Það er gott að vera vel merktur núna. Núna sést ég vel, merkt Húsasmiðjunni og ég þakka þeim kærlega fyrir allt það sem þau eru að gefa mér,“ segir Elín Birna sem þegar hún faðmaði Guðrúnu og Sverri fyrir gjafirnar.
Labbar 30.000 skref á dag
Elín Birna byrjaði að plokka árið 2022. „Ég fer mikið í gönguferðir og tók eftir hvað var mikið rusl út um allt. Þannig byrjaði þetta og ég fer nánast á hverjum degi að plokka.“
„Mig langar bara að hvetja fólk þegar það fer út í göngutúr að taka með sér poka. Það geta allir plokkað eitthvað smá, þó að það sé ekki nema eitthvað. Það skiptir allt máli.“
Elín Birna plokkar svo gott sem alla daga vikunnar og labbar að meðaltali 30.000 skref á dag. Mest hefur hún gengið 25 km á einum degi.
En hefur það aldrei gerst að Elínu Birnu ofbjóði hreinlega ruslið? „Það hefur alveg komið fyrir að mig langi bara snúa við og fara heim og gera eitthvað annað en mér finnst svo frábært að sjá þegar þetta er búið, að sjá muninn,“ segir Elín Birna kát að lokum.


