„Það gerast töfrar í vatninu“

Cranio í Sundhöll Selfoss hefur notið vaxandi vinsælda síðan það hófst haustið 2021. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Á þriðjudagskvöldum gerast kyngimagnaðir hlutir í Sundhöll Selfoss en þá fer fram cranio meðferð – einnig kallað höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð – í innilauginni. Hafa þessar meðferðir notið sívaxandi vinsælda síðan þær hófust í sundlauginni haustið 2021.

„Cranio er mjúk líkamsmeðhöndlun – hreyfir við himnukerfi líkamans, flæði heila- og mænuvökva og þeim himnum sem umlykja hann. Cranio hefur áhrif á stoðkerfið og önnur líkamskerfi,“ segir Brynja Ósk Rúnarsdóttir ein af meðferðaraðilunum, í samtali við sunnlenska.is.

Hátt í tuttugu einstaklingar sjá um cranio meðferð í Sundhöll Selfoss og vinna þeir oft tveir eða fleiri saman með einstaklinginn. Sjálf vinnur Brynja Ósk mikið með Ragnhildi Guðrúnu Eggertsdóttur og tekur hver meðferð um þrjátíu mínútur.

„Líkaminn er ein heild og kerfi líkamans er með sjálfslæknandi eiginleika. Vatnið vinnur með líkamanum. Flæði vatnsins örvar eða sefar líkamsflæðið, hvort sem þarf.“

Brynja Ósk og Ragnhildur Guðrún vinna mikið saman í cranio meðhöndlun. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Gott að vinna tilfinningavinnu í vatni
Aðspurð hvort sé betra – cranio í vatni eða á þurru landi segir Brynja Ósk að það sé bæði betra. „Í vatninu er engin mótstaða þegar maður er ekki á bekk og hægt að fara í mjög miklar afvindingar á líkamanum og vatnið hjálpar mjög til í meðferðinni í rauninni með alls konar losanir. Einnig er mjög gott að vinna tilfinningavinnu í vatni.“

„Það gerast töfrar í vatninu. Vatnið vinnur með okkur. Og einmitt þetta – við byrjuðum náttúrlega öll í vatni og förum oft í upprunann og hvað er betra en að heila sig en að fara í upprunann. Finna sig þar,“ segir Brynja Ósk sem kynntist sjálf vatnavinnu snemma í sínu námi, eða um 2016.

Mikilvægt að biðja um aðstoð
Brynja Ósk segir að cranio sé fyrir alla sem vilja bæta lífsgæði sín. „Þetta er gott fyrir stoðkerfið, taugakerfið og allt kerfið.“

„Árið 2023 er fullkominn tími til að vera heilsusamlegur. Möguleikar til góðra lífskjara eru óþrjótandi, hugum að heilsunni í dag og virðum hverja frumu og hvert líffæri. Spáðu í því – líkaminn getur heilað sig svo ótrúlega mikið og það er svo ótrúlega mikilvægt að biðja um aðstoð ef eitthvað bjátar á. Þar gilda T-in þrjú – það er að trúa, treysta og vera til í það,“ segir Brynja að lokum.

Hægt er að fara í miklar afvindingar þegar cranio meðferð er framkvæmd í vatni. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinÁrborg og Hamar sigruðu – ÍBU missti niður tveggja marka forskot
Næsta greinAdam tryggði KFR sigur – Stokkseyri tapaði