„Það er ótrúlega gaman að vera VÆB kærasta“

Sirrý og Matti í Basel. Ljósmynd/Úr einkasafni

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að fyrra undanúrslitakvöldið í Eurovision er í kvöld, þar sem fulltrúar Íslands, VÆB bræðurnir, stíga á svið.

VÆB á sína sunnlensku tengingu en kærasta Matta í VÆB er Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir frá Þorlákshöfn. Að auki er einn dansaranna Sunnlendingur en Baldvin Alan Thorarensen kemur frá Hveragerði.

Blaðamaður sunnlenska.is heyrði í Sirrý þar sem hún er stödd í Basel í Sviss þar sem Eurovision fer fram í ár. Hún hefur heldur betur orðið vör við áhuga fólks á VÆB í Basel.

„Stemning í Basel er ótrúlega góð. Það er ótrúlega mikið af fólki hérna. Það er búið að leggja borgina undir Eurovision. Það er búið að skreyta allt í fánum og plakötum. Þú sérð mjög vel að það er Eurovision hérna,“ segir Sirrý.

„Í fyrradag þá var Turquoise Carpet sem er einn stærsti viðburðurinn fyrir keppnina sjálfa. Þá eru þeir að labba rauða dregilinn, nema rauði dregillinn er túrkisblár. Göturnar voru fullar af fólki, við höfum aldrei séð svona. Þetta var rosalega mikið af fólki. Síðan er bara partý öll kvöld, út um allt. Þannig að það má segja að stemningin sé mjög góð og mikil spenna í loftinu.“

Eins og stelpurnar séu að hitta Justin Biber
Sirrý segir strákana vera frekar vinsæla úti í Basel. „Við sjáum mjög mikið af VÆB gleraugum, þar sem fólk er bara búið að steina gleraugun sín og svo er alltaf tekið mjög vel á móti þeim. Þeir til dæmis trylltu húsið í The Nordic Party, sem er partý fyrir Norðurlandaþjóðirnar og þeir náðu upp rosalega mikilli og góðri stemningu.“

„Við erum að sjá video þar sem fólk kom bara með plaköt og öskursöng lagið. Þeir eru að fá mjög góðar viðtökur. Aðdáendur bíða oft eftir þeim til að taka mynd eða segja þeim að þau séu með plaköt eða bara til að knúsa þá. Við lentum einmitt í því í fyrradag að þá voru stelpur sem voru bara eins og þær væru að hitta Justin Bieber. Þannig að við verðum alveg vör við mjög mikið VÆB æði, þeir eru mikið stoppaðir og það er ótrúlega mikil stemning.“

Lítið annað talað um en VÆB
En hvernig er það fyrir Sirrý að vera VÆB kærasta? „Það er ótrúlega gaman að vera VÆB kærasta. Ég verð kannski ekki beint fyrir áreiti þannig séð en ef ég kannski segi að ég sé kærasta eins í VÆB þá er mjög mikið spurt. Fólk er mjög forvitið og spyr mig út í þá og svona. Það er ekki búið að tala um mikið annað en að þeir séu að keppa í Eurovision síðustu mánuði,“ segir Sirrý og bætir því við að það sé skrítið að venjast því að sjá myndir af þeim út um allt, hvert sem hún fer.

„Ég hef líka alveg fengið skilaboð á Instagram og TikTok þar sem einhverjir aðdáendur eru kannski ekkert mjög sáttir við það að ég sé kærasta VÆB en það hefur bara gerst tvisvar, þrisvar. En þetta er fyrst og fremst ógeðslega gaman. Þeir eru sjúklega duglegir og það er náttúrulega búið að vera rosalega mikið að gera.“

Sirrý á Söngvakeppni á Sjónvarpsins. Ljósmynd/Ágústa Ragnarsdóttir

Skemmtilegt ævintýri
Þrátt fyrir annríki og að sjá lítið af Matta sínum þá segir Sirrý að VÆB ævintýrið sé búið að vera ótrúlega skemmtilegt. „Þetta er búið að vera rosaleg stemning í þrjá mánuði. Líka alveg stress en aðallega ógeðslega skemmtilegt. Ég er búin að hitta og kynnast ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki.“

„Þeir eru búnir að standa sig eins og hetjur. Þetta er búið að ganga ótrúlega vel, sem er bara geggjað. Svolítið skrítið að hafa hann svona mikið í burtu en fyrir utan það þá er þetta alveg æði,“ segir Sirrý og stoltið leynir sér ekki.

Ótrúlega stolt af þeim, sama hvað
Sem fyrr segir þá stíga VÆB bræður á stokk í kvöld klukkan 19:00 og eru þeir fyrstir á svið. „Ég er að mestu leyti mjög spennt fyrir kvöldinu. Ég held að þetta verði ótrúlega gaman. Þeir eru fyrstir á svið, they are gonna bring the power.“

„Auðvitað er maður alveg smá stressaður en við ætlum bara að hafa það ótrúlega gaman í kvöld. Ég veit að þeir munu skemmta sér konunglega og það er það sem skiptir máli og við erum ótrúlega stolt af þeim, sama hvað. Það er bara ótrúlegt að bráðum er þessi Eurovision ferð að klárast. En ég held að þeir séu ekki að koma niður á jörðina nærri því strax. Þeir eru að gigga í allt sumar og það eru bara tónleikar strax helgina eftir að þeir koma heim. Þetta er búið að skapa rosalega mikið af tækifærum fyrir þá.“

Fallegt hvað allir standa saman
„Við eru ótrúlega stolt af þeim og bara öllu liðinu. Dansarnir eru geggjaðir, eru búnir að standa sig eins og hetjur. Allt teymið hjá RÚV og bara allir sem tengjast atriðinu á einhvern hátt eru búnir að standa sig svo vel.“

„Þetta er búið að vera svo mikil og góð samvinna. Það er svo fallegt hvað allir standa saman. Það er búið að vera ótrúlega gaman að sjá það og sjá hvað þeir blómstra í því og hvað þeim er vel tekið alls staðar. Það eiga bara allir mjög mikið hrós skilið,“ segir Sirrý að lokum.

Fyrri greinEgill íþróttamaður ársins hjá USVS
Næsta greinKristín Ósk ráðin leikskólastjóri