„Það er augljóst að Aníta á góða að“

Aníta Röngvaldsdóttir ásamt sonum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Laugardaginn 16. mars verður haldin styrktaræfing í BOX 800 á Selfossi fyrir Anítu Rögnvaldsdóttur en hún greindist nýlega með krabbamein.

Alda Kristinsdóttir hjá BOX 800 segir í samtali við sunnlenska.is að hugmyndin að styrktaræfingunni hafi kviknað hjá vinkonu þeirra, Esther Ýr Óskarsdóttur. „Þegar Aníta greindist fyrir áramót fékk Esther hugmynd um að hanna boli í samstarfi við listakonuna Rakel Rögnvaldsdóttur, Rakel Rögn. Rakel, sem er systir Anítu, tók vel í hugmyndina og við í Box800 vorum meira en til í þessi verkefni.“

„Úr varð samstarfsverkefnið BOX 800 x Rakel Rögn og seldum við yfir hundrað boli í forsölu en allur ágóði af sölu bolanna mun renna beint til Krafts. Í kjölfarið af þeirri hugmynd stakk Esther upp á að haldin yrði styrktaræfing fyrir Anítu í BOX 800 og tókum við strax vel í þá hugmynd. Við erum afar þakklát fyrir að geta látið gott af okkur leiða og vonumst eftir því að sem flestir taki þátt í þessu verkefni með okkur.“

Samheldið samfélag
Alda segir að viðtökurnar við styrktaræfingunni hafi verið frábærar. „Það er augljóst að Aníta á góða að og samfélagið sem við búum í er samheldið. Nú þegar eru 80 skráðir á æfingu hjá okkur á laugardaginn. Fólk hefur einnig verið að leggja inn frjáls framlög þrátt fyrir að vera ekki skráð á styrktaræfinguna.“

Aðspurð hvort þau séu með markmið að safna einhverri ákveðinni upphæð segir Alda svo ekki vera.„Meginmarkmiðið er að safna sem mestum pening svo hægt sé að létta undir hjá Anítu og fjölskyldu. Margt smátt gerir eitt stórt.“

„Æfingin verður paraæfing þar sem tveir og tveir vinna saman. Unnið verður í 25 mínútur og verða hreyfingarnar þannig að allir geta verið með. Það er ekkert mál að breyta hreyfingum svo allir geti tekið þátt og notið þess að hreyfa sig. Það er gott að taka fram að það vinnur aðeins einn aðili í einu svo fólk þarf hvorki að hræðast tímalengdina né fjölda endurtekninga.“

Allir geta verið með
Þeir sem hafa ekki tök á því að mæta í BOX 800 á laugardaginn eiga samt sem áður kost á því að taka þátt í æfingunni. „Við hvetjum alla til að taka þátt. Við munum birta æfinguna á samfélagsmiðlum BOX 800. Einnig vitum við til þess að Katrín Ösp, vinkona Anítu, ætlar að gera æfinguna í beinni á Instagram miðlinum sínum: katrinfunfit – og hvetjum við alla til að kíkja á það.“

 

Vinkonurnar Katrín og Aníta á góðri stundu. Ljósmynd/Aðsend
Aníta og Katrín eru æskuvinkonur. Katrín stendur þétt við bakið á vinkonu sinni. Ljósmynd/Aðsend

„Við hvetjum alla til þess að koma á æfingu hjá okkur á laugardaginn eða einfaldlega kíkja á okkur á milli kl. 9 og 14. Við höfum fengið til liðs við okkur frábær fyrirtæki sem ætla að styrkja okkur um vörur og mun öll innkoma af þeim renna beint til Anítu. Þetta eru vörur frá Ísey Skyrbar á Selfossi, Hleðsla frá MS ásamt Nocco og Barebell frá Core,“ segir Alda að lokum.

Hægt er að finna upplýsingar um skráningu á æfinguna á samfélagsmiðlum BOX 800 og hægt er að leggja frjáls framlög inn á:

Kt. 681122-1170
Reikn.nr. 0586-26-681122

Samfélagið stendur þétt við bakið á Anítu. Á samfélagsmiðlum hefur fólk verið að deila þessari mynd frá Ísak Eldjárn þar sem fólk skorar á aðra að styrkja Anítu með peningaupphæð að eigin vali. Ísak var sjálfur í þessum sporum fyrir bráðum tveimur árum og þekkir það af eigin raun hversu ómetanlegt það er að fá stuðning frá nærsamfélaginu. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHafsteinn íþróttamaður Hamars 2023
Næsta greinAðeins eitt tilboð barst í smíði nýrrar Ölfusárbrúar