„Það er auðvelt að bjarga þessum greyjum“

Ragnheiður og Sigurjón í björgunarleiðangrinum. Ljósmynd/Aðsend

Um síðustu helgi lögðu nokkrir félagar úr Fuglavernd upp í björgunarleiðangra til þess að bjarga fýlsungum úr vegköntum við Suðurlandsveg. Meðal þeirra var Ragnheiður Blöndal á Selfossi og hún skorar á fólk að taka höndum saman til þess að bjarga fleiri ungum.

„Fýlsungar eru nú margir hverjir í bráðri hættu þar sem þeir yfirgefa hreiðrin sín upp úr miðjum ágúst fram í miðjan september í þeim tilgangi að komast út að sjó. Margir vita ekki að ungfuglinn er ófleygur fyrst um sinn þegar hann yfirgefur hreiðrið. Hann þarf byr undir vængina til að komast niður að sjó en það gerist því miður ekki alltaf og sumir brotlenda á leið sinni þangað. Á leið þeirra úr hreiðrinu eru margar fyrirstöður, meðal annars tún, girðingar, skurðir og þjóðvegur 1 en þar brotlenda þeir, ófleygir og ósjálfbjarga með öllu,“ segir Ragnheiður.

Ljósmynd/Aðsend

Gekk til liðs við Fuglavernd
Hún segir að hugmyndin að björgunarleiðangrinum hafi kviknað eftir að hún og maður hennar, Sigurjón Birgisson, fóru á Kirkjubæjarklaustur á dögunum og sáu alla dauðu fuglana í vegkantinum. Ragnheiður ákvað að ganga til liðs við Fuglavernd í kjölfarið og helgina eftir fóru þau Sigurjón, ásamt fleiri félögum úr samtökunum af stað til þess að bjarga ungum.

„Ungfuglinn er jafnstór fullvaxta fugli og því vel sýnilegur. Margir ökumenn aka á fuglana þar sem þeir liggja á veginum og í vegköntum og starfsmenn Vegagerðarinnar hafa ekki undan að hreinsa veginn af sundurtrættum fuglsungum. Hugsanlega halda einhverjir ökumenn að þarna séu á ferðinni fullvaxta fuglar sem búið sé að aka yfir og skeyta því ekki um það. Einnig eru ungarnir inni í þorpinu í Vík, þar sem þeir stranda í heimagörðum og á götum úti,“ segir Ragnheiður og bætir við að það sé mjög auðvelt að bjarga fýlsungum úr sjálfheldu og koma þeim í lygnar ár eða ósa í nágrenni Víkur.

Ljósmynd/Aðsend

Ekkert má að forðast spýjurnar
„Margir veigra sér kannski við að aðstoða hann vegna lýsis sem hann getur spúið, en það er náttúrulegt varnarviðbragð hjá honum. Um síðustu helgi var 129 fuglum bjargað og nánast engin af þeim ungum spúði lýsi. Þeir fáu sem spúðu höfðu ekki erindi sem erfiði en spýjurnar voru mjóar bunur sem auðveldlega var hægt að forðast og engin lykt var áberandi. Ef sex manneskjur gátu bjargað 129 ungfuglum á tveimur dögum, ímyndið ykkur þá hve mörgum væri hægt að bjarga ef fleiri einstaklingar myndu stíga fram og grípa til aðgerða,“ segir Ragnheiður en þetta tímabil sem ungarnir eru á ferðinni er sem fyrr segir frá miðjum ágúst fram í miðjan september.

„Síðan væri auðvitað skemmtilegast ef björgun fýlsunga á þessu svæði yrði árlegur viðburður hér eftir, eins og pysjuveiðarnar í Vestmannaeyjum. Það er auðvelt að bjarga þessum greyjum en það eru ákveðnir hlutir sem er gott að hafa í huga áður en lagt er af stað. Það er gott að vera á bíl með stóru skotti eða kerru aftan í, taka með nokkra kassa með loki sem hægt er að tylla aftur og handklæði til að setja yfir fuglinn áður en hann er tekinn upp. Svo þarf auðvitað að klæða sig eftir veðri,“ segir Ragnheiður.

Hún bendir á að ekki sé ráðlegt að sleppa í sandfjörur við sjó þar sem brim er mikið því þá velkist fuglinn bara um og drepst síðan. Góðir sleppistaðir í nágrenni Víkur eru meðal annars við neðri Dyrhólaey, við Holtsós og við Kerlingadalsá austan við Vík.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinAllir litir hafa tilgang, eins og hvert barn hefur tilgang
Næsta greinSelfyssingar sváfu á verðinum