Tengivirki Landsnets í gjörgæslu

Ljósmynd/Landsnet

Landsnet hafði raforkutengivirki á Suðvesturlandi í gjörgæslu í gær þar sem einkum var rýnt eftir seltu.

Um miðjan dag var spennan í kerfinu lækkuð lítillega. Þegar líða tók á kvöldið var staðan metin þannig að brýnt væri að lækka spennuna verulega þar sem selta hafði aukist og glæringar og snark orðið mjög áberandi í sumum tengivirkjum. Spennan í Sigöldu var færð í 213 kV. Þessi spennulækkun hafði markverð áhrif til minnkunar á glæringar og snark í virkjunum. Raforkukerfið var rekið svona aðfaranótt fimmtudags.

Í morgun var ástandið ívið betra og því var ákveðið að hækka spennuna í kerfinu á Þjórsár-Tungnársvæðinu lítillega, eða um 2-3 kV í samráði við Landsvirkjun. Í nótt og í fyrramálið er spáð hlýnandi með vætu sem eykur verulega hættu á að línur slái út vegna seltu.

Kl. 20:37 í gærkvöldi varð bilun í Selfosslínu 2, líklega vegna seltu. Línan var tekin aftur í rekstur rétt fyrir kl. 22 en enginn notandi varð fyrir rafmagnsleysi. Þá varð einnig bilun í Sogslínu 2 sem liggur frá Írafossi að Geithálsi. Þar var skipt um ónýta skálakeðju og lauk viðgerð kl. 19:30 í gærkvöldi.

Fyrri greinDúó Fjara gefur út sína fyrstu plötu
Næsta greinSamið við Sólheima um kolefnislosun