Tengi opnar verslun á Selfossi

Úr sýningarsal Tengi í Kópavoginum. Að sögn Þóris verður salurinn á Selfossi jafn glæsilegur. Ljósmynd/Aðsend

Á vormánuðum mun verslunin Tengi opna útibú á Selfossi. Að sögn Þóris Sigurgeirssonar, framkvæmdastjóra, hafa menn þar á bæ lengi haft augastað á Selfossi.

 „Selfoss er fallegur bær, sem alltaf er gaman að heimsækja. Það er búin að vera mikil uppbygging í gangi á þessu svæði og fyrirsjáanlegt að svo verði næstu árin. Okkur finnst vanta verslun eins og Tengi á Selfoss þar sem engin sérvöruverslun með hreinlætistæki og pípulagningaefni er þar fyrir,“ segir Þórir í samtali við sunnlenska.is.

 „Fyrir utan verslun okkar í Kópavogi höfum við verið með verslun á Akureyri sem hefur gengið vel og við sjáum það fyrir okkur að það ætti einnig að geta gengið á Selfossi. Fyrir utan Selfoss og næsta nágrenni er þjónustusvæðið mjög dreift og verslunin getur þjónustað næstu byggðarlög, sveitirnar og sumarhúsabyggðina,“ segir Þórir.

Tekur tíma að standsetja húsnæðið
„Við fáum húsnæðið afhent 1. mars og hefjumst þá handa við að gera það klárt. Opnunin mun verða á vormánuðum, en nánari dagsetning verður gefin út síðar. Verslunin verður að Austurvegi 69. Það eru mörg þjónustufyrirtæki í þessum enda bæjarins, aðgengi er auðvelt hvaðan sem þú kemur og nóg af bílastæðum.“

Þórir segir að undirbúningurinn hafi tekið smá tíma þar sem húsnæðið hefur verið í endurnýjun „Við tökum við því í toppstandi, allt nýtt að innan sem utan. Ég vil nota tækifærið og hrósa húseigendum fyrir að hafa tekið vel í allar breytingar sem við vildum gera til að aðlaga húsnæðið að okkar þörfum. Þar eru toppmenn á ferð.“

Verslunarstjóri óskast
Þórir segir að þau geri ráð fyrir að byrja á að ráða þrjá starfsmenn. „En fyrstu vikurnar eftir opnun munum við verða fleiri til að koma rekstrinum af stað og tökum stöðuna í framhaldinu. Það er ágætt að koma því á framfæri að við vorum að auglýsa eftir verslunarstjóra og vonandi finnst hann í heimabyggð.“

„Verslunin verður glæsileg þar sem allt það helsta í blöndunar- og hreinlætistækjum verður til sýnis í björtum og rúmgóðum sýningarsal. Við leggjum líka mikið upp úr því að þjónusta fagmenn vel og verður til að mynda sér inngangur fyrir þá beint inn í lagnadeildina þar sem verður þægileg kaffiaðstaða og rými til að skoða hvað er nýtt í heimi pípulagna. Húsnæðið er vel rúmt og við gerum ráð fyrir að vera með allar okkar vörur á lager,“ segir Þórir að lokum.

Fyrri greinÞórisjökull skelfur
Næsta greinErfitt hjá drengjunum gegn fullvöxnum Kríum