Tengi opnar á laugardaginn

Verslun Tengi á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Næstkomandi laugardag mun verslunin Tengi opna nýja og glæsilega verslun að Austurvegi 69 á Selfossi.

„Það er mikil tilhlökkun fyrir því að opna nýtt útibú á Selfossi. Það hefur staðið til lengi en loksins núna er það að verða að veruleika. Það er mikill uppgangur og kraftur í sveitarfélaginu og við erum ákaflega spennt að fá að taka þátt í þessari miklu uppbyggingu sem í gangi er á Suðurlandi,“ segir Arnar Árnason, sölu- og markaðsstjóri Tengi, í samtali við sunnlenska.is.

Persónuleg og fagleg þjónusta
„Við verðum með léttar kaffiveitingar og gos fyrir alla gesti á laugardaginn ásamt því að vera með fjölda starfsmanna frá öðrum starfstöðvum okkar til að þjónusta alla á sem bestan máta. Hjá Tengi leggjum við mikið upp úr persónulegri og faglegri þjónustu,“ segir Arnar.

Að sögn Arnars verður verslun Tengi á Selfossi svipuð versluninni sem er á Akureyri. „Verslun okkar að Austurvegi 69 á Selfossi er með frábært úrval gæða merkja sem Tengi er þekkt fyrir. Í glæsilegum sýningarsal okkar verður hægt að skoða allar okkar vinsælustu vörur. Verslun okkar á Selfossi er byggð upp með sama móti og verslun okkar á Akureyri sem hefur verið starfrækt í yfir fjórtán ár með fyrirmyndarárangri.“

Mikil eftirvænting
„Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel enda höfum við notið liðsinnis afbragðs fagmanna hér á Selfossi sem hafa verið okkur ákaflega hjálplegir. Við tókum við húsnæðinu í mars og uppbygging verslunar hófst í apríl. Það er því töluverð eftirvænting hjá okkur að opna dyrnar fyrir heimamönnum þann 12. júní klukkan 10:00.“

„Við heyrum ekki annað en það sé mikill spenningur hjá bæjarbúum fyrir komu Tengis, bæði hjá almenningi og fagaðilum. Til að mynda verðum við með sér inngang og aðstöðu fyrir fagmenn sem við leggjum mikið upp úr,“ segir Arnar að lokum.

Fyrri greinÞrír í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinOddaleikur í Þorlákshöfn á laugardaginn