Tengdi framhjá rafmagnsmæli

Maðurinn sem handtekinn var í Hveragerði á laugardag vegna kannabisræktunar hafði tengt framhjá orkumæli í rafmagnstöflu á heimili sínu. Hann játaði ræktunina og önnur brot sem hann var grunaður um.

Lögreglan hafði afskipti af manninum um hádegi á laugardag þar sem hann var við akstur í Hveragerði. Maðurinn var ekki með ökuskírteini á sér og bar þess merki að vera undir áhrifum fíkniefna. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem í ljós kom að hann var sviptur ökuréttindum. Við leit á manninum fannst marihuana.

Í kjölfarið var ákveðið að gera húsleit á dvalarstað mannsins í Hveragerði. Þar fundust 29 hassplöntur á lokastigi í ræktun. Plönturnar voru gróskumiklar, á milli 70 til 80 sm á hæð. Við vettvangsrannsókn kom í ljós að maðurinn hafði tengt framhjá orkumæli í rafmagnstöflu hússins.

Maðurinn játaði ræktunina og önnur brot sem hann var grunaður um. Engar vísbendingar eru um að aðrir tengist ræktuninni. Ekki liggur fyrir um magn og styrkleika plantnanna en þær verða sendar til rannsóknar.