Þeir sumarhúsaeigendur sem sækja verslun á Selfossi eru í langflestum tilvikum að sækja matvöruverslanir, bygginga- og raftækjavöruverslanir eða vínbúðina.
Aðeins um sjötti hver nýtir sér þjónustu fata- eða gjafavöruverslana á Selfossi og tæplega þriðjungur kemur við í veitingahúsi eða á skyndibitastað. Ríflega 20 prósent fara í sund.
Þetta er meðal niðurstaðna sem koma fram í rannsóknarritgerð Magnúsar Gísla Sveinssonar sem hann gerði við háskólann á Bifröst á síðasta ári. Þá kemur fram í ritgerðinni að fæstir þeirra sumarhúsaeigenda sem spurðir voru eru líklegir til að gera breytingar á verslunarháttum sínum þótt ný brú verði byggð yfir Ölfusá, austan megin við Selfoss.
Magnús Gísli, segir það hafa komið sér mest á óvart hversu lágt hlutfall svarenda nýtti sér þjónustu verslana utan matvörukeðjanna og stóru byggingarfyrirtækjanna. Hann segir að í viðtölum við kaupmenn hafi hann fengið á tilfinninguna að sumarbústaðareigendur væri veigameiri þáttur í versluninni.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu