Telur hæpið að samningurinn standist innkaupareglur

Gunnar Örn Marteinsson, fyrrverandi oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps og nú eini fulltrúinn í minnihluta vill gera breytingar á sorphirðu í sveitarfélaginu.

Gunnar vill að sveitarfélagið undirbúi útboð þar sem gert sé ráð fyrir tveggja tunnu kerfi en ekki þriggja tunnu eins og gert var í síðasta samningi um sorphirðu.

Gunnar lagði fram tillögu á síðasta fundi sveitarstjórnar þess efnis að ákvörðun sveitarstjórnar frá í vor um að fela Íslenska gámafélaginu sorphirðu án útboðs til september 2015, verði felld úr gildi. Gunnar telur hæpið að samningurinn við Íslenska gámafélagið standist innkaupareglur sveitarfélagsins.

Gunnar fylgdi tillögu sinni eftir með greinargerð þar sem kemur fram að á sínum tíma hafi verið samið við Íslenska gámafélagið um sorphirðu án útboðs og „byggði það á því sjónarmiði að það fyrirtæki var það eina sem bauð uppá þriggja tunnu kerfi í sorphirðu, en það var í samræmi við metnaðarfull markmið sveitarstjórnar á þeim tíma…“ Þá hafi innkaupareglur ekki verið til staðar á þeim tíma.

Fram kemur að rúmt ár sé síðan samningurinn við fyrirtækið hafi runnið út og að mati Gunnars Arnar tímabært að undirbúa nýtt útboð á sorphirðunni. Þess utan hafi sveitarstjórn ákveðið að söfnun á lífrænum úrgangi verði hætt og því ekki ástæða til að viðhalda þriggja tunnu kerfinu.

Að endingu benti Gunnar Örn á að samningurinn sem gerður var við Íslenska gámafélagið í apríl sl. hafi ekki verið lagður fram til staðfestingar í sveitarstjórn og því yrði ekki um samningsrof að ræða.

Eftir umræður var tillaga Gunnars felld gegn atkvæðum þremur fulltrúa meirihlutans, en Oddur Bjarnason sat hjá.

Fyrri greinÞrettán á biðlista Kirkjuhvols
Næsta greinTekist á um gjaldskrárhækkun hitaveitunnar