Telur ferðamátann hættulegan vegna aksturslagsins

Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima og sveitarstjórnarmaður í Grímsnes- og Grafningshrepp segist ekki senda börn sín með strætisvögnum og þykir óþægilegt að vita af fólki um borð. Hann segir stöðuna ekki boðlega.

Þetta segir Guðmundur í grein á heimasíðu sinni, eftir að hafa ekið einu sinni sem oftar um Kambana þar sem hann varð vitni að því sem hann kallar óábyrgan akstur strætóbílstjóar.

Lýsir hann því svo að strætó hafi verið ekið fram úr honum, „klárlega á vel á annað hundrað kílómetra hraða og hverfur sjónum.“ Guðmundur segist hafa gert athugasemdir við aksturslag strætó en ekkert breytist.

SASS ber ábyrgð
Færsla Guðmundar vekur ekki síst athygli þar sem hann er sveitarstjórnarmaður. Segir hann svo meðal annars: „Samtök Sunnlenskra sveitarfélaga hafa séð um/borið ábyrgð á almenningssamgöngum á Suðurlandi síðan árið 2012 og strætó verið falið verkefnið. Ég get ekki séð að sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi eða aðrir íbúar vilji gefa afslátt af öryggi þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur.“

Vilja fá ábendingar
Sunnlenska óskaði eftir viðbrögðum frá forsvarsmönnum Strætó vegna þessa. Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri segir í athugasemd að hann hafi ekki fengið ábendingar um hraðakstur. „Við hinsvegar brýnum fyrir öllum sem keyra fyrir okkur að virða umferðarreglur og hámarkshraða. Reglulega eiga akstursaðilar að fara yfir öryggismál með bílstjórum,“ segir í hann í svari sínu.

„Viðbrögð okkar við ummælum sveitarstjórnarmanns á Suðurlandi eru á þann hátt að við viljum fá svona ábendingar svo hægt sé að bregðast við og laga. Fólk sem ferðast með Strætó hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni á að geta gengið að því sem vísu að það geti ferðast á öryggan og þægilegan hátt,“ bætir Jóhannes við.

Fyrri greinSelfoss byrjar vel í Olís-deildinni
Næsta greinKFR tapaði í lokaumferðinni