Telja umræðuna um einelti þarfa

Hveragerðisbær og forsvarsmenn Grunnskólans í Hveragerði telja að umræðan um einelti undanfarna daga sé afar þörf.

Í fréttatilkynningu sem þessir aðilar sendu frá sér í dag segir að vonandi nái umræðan að vekja sem flesta til meðvitundar um þá meinsemd sem einelti er. Einelti í grunnskólum sem annars staðar er smánarblettur og öll umræða sem orðið getur til að koma í veg fyrir slíkt er af hinu góða. Það þarf kjark til að standa með barninu sínu í erfiðum aðstæðum og slíkt er hlutverk foreldra og forráðamanna þeirra sem yngstir eru.

Einelti er ofbeldi sem hvergi á að líðast. Þess vegna var Grunnskólinn í Hveragerði með fyrstu skólum á landinu (2004) til að taka upp Olweusar áætlunina gegn einelti. Allt skólasamfélagið tekur þátt í þeirri áætlun, starfsfólk skólans, nemendur og foreldrar. Reynslan hefur sýnt okkur að þegar allir vinna saman tekst okkur yfirleitt að uppræta einelti. Það getur tekið tíma en það má aldrei gefast upp.

Í Grunnskólanum í Hveragerði er unnið gegn einelti á eftirfarandi hátt:
• Unnið er eftir Olweusaráætlun
• ART-þjálfun, bekkjarART og boðið upp á meðferðarART. (ART = Þjálfun í félagsfærni, sjálfstjórn og félagsvænum viðhorfum).
• Vinabekkir – vinahópar
• Þjónusta námsráðgjafa
• Í erfiðustu tilfellunum er málum vísað til nemendaverndarráðs. Í því sitja, deildarstjóri sérkennslu, staðgengill skólastjóra, námsráðgjafi, félagsmálastjóri, skólasálfræðingur og fulltrúi heilsugæslu. Hlutverk þess er meðal annars að finna viðunandi lausn á eineltismálum.
Samkvæmt niðurstöðum úr könnunum þar á meðal úr Skólapúlsi mælist einelti í Grunnskólanum í Hveragerði minna en almennt gerist í skólum landsins.

Hvert tilfelli eineltis er einu tilfelli er of mikið. Því þurfa allir að vera vakandi fyrir einkennum sem bent geta til vanlíðunar barna. Í kjölfar umræðu undanfarinna daga munu allir sem að málefnum barna koma leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að börnum í Hveragerði megi líða sem best, í og utan skóla.

Undir fréttatilkynninguna rita Guðjón Sigurðsson, skólastjóri og Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.

Fyrri greinJónas á lag ársins
Næsta greinSegja sig úr samráðshópi um skólamál