Tekur fimm mánuði með tilheyrandi lokunum

„Þetta er svæðið frá og með Austurvegi upp fyrir sundlaugina. Það þarf að skipta um allar lagnir þarna og síðan verður malbikað og gengið frá gönguleiðum,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar þegar hún var spurð út í fyrirhugaðar framkvæmdir á Tryggvagötunni á Selfossi á næsta ári.

Fyrir nokkrum árum var tekinn kaflinn frá Árvegi upp að Austurvegi og nú verður haldið áfram að sögn Ástu. Hún segir eina meginástæðu þess að ráðast þurfi í framkvæmd þessa vera þá að bæta þurfi frárennslið í götunni og leggja fráveitulagnir á meira dýpi en nú er. „Þetta verður heilmikil framkvæmd og mun hafa áhrif á umferð og akstursleiðir og er framkvæmda- og veitusvið byrjað að kynna þetta fyrir verslunareigendum og öðrum sem eru með starfsemi á svæðinu. Leitast verður við að merkja hjáleiðir vel og gera umferð gangandi sem auðveldasta á meðan á framkvæmdum stendur,“ segir Ásta.

Hún segir að í heildina sé ætlað að verkið taki um fimm mánuði, eða frá mars og fram í lok júlí. Gert sé ráð fyrir að vinna verkið í tveimur áföngum. „Það verður byrjað á þverun Austurvegar og síðan haldið áfram með Tryggvagötuna í framhaldi af því,“ segir Ásta. Lokanir og verkáætlun verður kynnt nánar þegar þar að kemur.

Fyrri greinSjúkrabíl fylgt um Þrengslin
Næsta greinSíminn með 4G í Hveragerði