Tekist á um skipulag Áfangagils

Deilur eru á milli Rangárþings ytra og Skipulagsstofnunar um skilgreiningu á Áfangagili á Landmannaafrétti en sveitarstjórn vill fá svæðið skilgreint sem skálasvæði í deiliskipulagi.

„Skipulagsstofnun hefur andmælt áformum okkar því það stangast á skilgreiningar þar sem Áfangagil er skipulagt sem fjallasel í aðalskipulagi hálendisins en við viljum fá það skipulagt sem skálasvæði,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Samkvæmt skilgreiningu skulu svokölluð fjallasel vera opin fyrir almenningi og eru þau jafnframt skilgreind sem staðir í takmörkuðu eða engu vegasambandi, þar með taldir gönguskálar, einkaskálar, veiðihús og gangnamannahús. Skálasvæði eru aftur á móti skilgreind sem staðir í góðu vegasambandi en með minni þjónustu en á hálendismiðstöðvum. Á skálasvæðum eru gistiskálar sem þjóna breiðum hópi ferðamanna en mörg húsanna eru jafnframt gangnamannahús. Á þessum svæðum er gert ráð fyrir að aukin þjónusta byggist upp.

Aðalskipulög Rangárþings ytra og miðhálendisins stangast nú á og hefur hreppsnefnd Rangárþings ytra farið fram á það við Skipulagsstofnun að hún breyti skilgreiningu í Áfangagili í skálasvæði í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í skipulagslögum.

Gunnsteinn segist ekki hafa miklar áhyggjur af þessum ágreiningi og telur aðeins um formsatriði að ræða. Hann bendir á að sveitarfélögin hafi enn fullt skipulagsvald og hafi töluvert um skipulag miðhálendisins að segja þrátt fyrir tillögur sem komið hafa fram um að draga úr áhrifum sveitarfélaga á hálendinu.

Fyrri greinÁtta hundateymi kemba svæðið
Næsta greinVerður tæpast að veruleika nema vegna stóriðjuáforma