Tekist á um siglingaleyfi

Bæjarráð Árborgar hefur falið bæjarritara að kalla saman til fundar hagsmunaaðila sem tengjast mögulegu leyfi á siglingum á Ölfusá.

Lögreglan, Björgunarfélag Árborgar, Stangaveiðifélag Selfoss, veiðiréttarhafar, landeigendur og áhugamenn um kajaksiglingar munu funda með bæjaryfirvöldum um þessi mál.

Í tengslum við breytingar á lögreglusamþykkt Árborgar er rætt um að slaka á siglingabanni á ánni. Margrét Katrín Erlingsdóttir, fráfarandi formaður bæjarráðs, var flutningsmaður tillögunnar. Hún segir mikil­vægt að hlusta á þá sem hagsmuni eigi að gæta.

Meðal þeirra sem hafa mótmælt eru sýslu­maðurinn á Selfossi, stangveiðimenn og um­hverfis- og skipulagsnefnd Árborgar. Aftur á móti er hópur kajak- og björgunarsveitarmanna hlynntur því að siglingar verði leyfðar.

„Ef siglingar verða leyfðar skapast nýtt tækifæri í ferðaþjónustu. Leiðin upp í Sogið er til dæmis mjög falleg og alls ekki eins hættuleg og af er látið,“ segir Margrét í samtali við Sunnlenska fréttablaðið.