Tekist á um rekstrarstöðuna í bæjarstjórn

Fjörugar umræður urðu við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun næsta árs á bæjarstjórnarfundi Árborgar nýverið en minnihlutinn deildi hart á meirihlutann um að skuldastaða Árborgar væri orðin slæm, á meðan meirihlutinn nýtti ekki til fulls alla tekjustofna sem til staðar væru hjá sveitarfélögum.

Helgi Haraldsson, bæjarfulltrúi B-lista sagði reksturinn í veralega vondum málum. Benti hann á að reksturinn væri ekki góður á yfirstandandi ári og að skuldahlutfall Árborgar væri komið í 160%. „Það er skrýtið að horfa á bæjarfulltrúa meirihlutans kalla eftir auknum tekjum frá ríkisvaldinu með breyttri tekjuskiptingu, en nýta ekki á sama tíma þá tekjustofna sem sveitarfélgin hafa til að fjármagna rekstur sinn,” sagði Helgi.

Gert er ráð fyrir því í áætluninni sem lögð var fyrir fundinn að reka A sjóð með 250 milljón króna halla, en að samstæðan verði réttu megin við núllið. Þá er verulega dregið úr fjárfestingum, gert er ráð fyrir um 280 til 290 milljónum í fjárfestingar, þar sem langstærsti hlutinn fer í hitaveituna, og um 100 milljónir í leit eftir heitu vatni.

En hversvegna velur meirihlutinn að hækka ekki skatta, svo sem fasteignaskattinn, líkt og Helgi bendir á? Ásta Stefánsdóttir, segir ekki vilja til þess í meirihlutanum, enda sé markmið þar að halda skattlagningu hóflegri.

„Við höfum verið með tiltölulega hátt fasteignamat, og um tíma vorum við því með ein hæstu fasteignagjöld á íbúa, yfir landið. Því var brugðið á það ráð að lækka skattinn, og við hættum að vera efst,” segir Ásta. „Ég vil ekki ná því Íslandsmeti aftur,” bætir hún við. Hún telur að aðhaldsaðgerðir muni skila sér, stjórnendur eiga eftir að skila inn sínum tillögum fyrir seinni umræðuna. „Þá varð verðbólguspáin lægri sem gæti lækkað fjármagnsliðina,” segir hún. Ásta bendir á að standist áætlanir verði skuldahutfallið aftur komið undir viðmið, og í 141 prósent við lok næsta árs.

Á fundinum í síðustu viku sagði Arna Ír Gunnarsdóttir, fulltrúi S-lista, að ljóst sé að staðan sé ekki góð, auknar skuldir, minna lausafé og frestun framkvæmda segi allt sem segja þarf um stöðuna.

Fyrri greinGuðbjörg Viðja sigraði í Blítt og létt
Næsta greinAuglýst eftir slökkviliðsstjóra