Tekist á um menningarsalinn

Þrátt fyrir að vera fokheldur hafa nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands sett upp fjölmargar sýningar í salnum síðustu áratugina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lista- og menningarnefnd Árborgar leggur til við bæjarstjórn að skipaður verði vinnuhópur sem ræði við eigendur Hótel Selfoss um möguleika þess að koma menningarsal hótelsins í gagnið.

Skömmu fyrir kosningar boðuðu eigendur Hótels Selfoss til opins fundar um framtíð menningarsalarins sem staðið hefur fokheldur í hátt í 30 ár. Þar voru ræddir möguleikar þess að koma salnum í gagnið, m.a. í samstarfi við sveitarfélagið. Fulltrúar D-listans í Lista- og menningarnefnd telja æskilegt að látið verði reyna á hvort það sé mögulegt. Þetta var rætt á fyrsta fundi Lista- og menningarnefndar Árborgar í vikunni.

Kjartan Ólason, fulltrúi S-lista í nefndinni, greiddi atkvæði á móti tillögunni og sagði hana að mörgu leyti vanreifaða.

„Ekkert formlegt erindi hefur borist nefndinni frá þessum einkaaðila um aðstoð við að koma þessari eign hans í nothæft ástand. Rétt er að minna á að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins stóðu að því á sínum tíma að selja þessa eign úr höndum sveitarfélagsins til einkaaðila með því fororði að markaðsöflin væru betur í stakk búin að ljúka þessu verki. Nú þegar það hefur ekki gengið eftir eins og fleira í stefnu þess flokks skýtur nokkuð skökku við að fulltrúar þessa sama flokks ætli að beita eigendum Hótels Selfoss á sameiginlega sjóði samfélagsins til þess að lappa upp á eign sem þeir fengu svo gott sem gefins á sínum tíma,“ segir í bókun Kjartans Ólasonar frá fundinum.

Fyrri greinEystri-Rangá kemur á óvart
Næsta greinEnn leitað að sveitarstjóra í Vík