Tekinn sviptur í þriðja sinn

Í síðustu viku höfðu lögreglumenn á Selfossi afskipti af ökumanni sem staðinn var að því þriðja sinni að aka sviptur ökurétti.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi. Þar kemur einnig fram að einn var kærður fyrir að aka ölvaður í vikunni og annar fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Aðfaranótt laugardags var lögregla kölluð til á 800Bar þar sem tveimur mönnum hafði lent saman og var annar þeirra með sýnilega áverka í andliti. Honum var komið undir læknishendur og reyndist óbrotinn.

Á sunnudag var tilkynnt um skemmdir á hliðslá á vegi að sumarbústaðabyggð í landi Syðri-Brúar í Grímsnesi. Síðar kom í ljós að þar voru að verki tveir menn sem lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu höfðu handtekið í gær vegna annara mála. Í yfirheyrslum þar lýstu þeir verknaðinum og jafnframt að hafa brotist inn í sumarbústaði á svæðinu.