Tekinn fyrir ölvunarakstur í tólfta sinn

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði þrjá ökumenn í liðinni viku, sem grunaðir eru um að aka bifreiðum sínum ölvaðir.

Einn þeirra var þarna stöðvaður fyrir ölvunarakstur í tólfta sinn og annar í sjöunda sinn. Báði hafa þeir ítrekað ekið sviptir ökurétti.

Þá kærði lögreglan 68 ökumenn fyrir að aka of hratt í umdæminu og afskipti voru höfð af tveimur aðilum sem grunaðir eru um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Báðir reyndust þeir hafa fíkniefni í vörslu sinni.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur einnig fram að lögreglan kærði átta ökumenn fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur.

Fylgst með atvinnubílstjórum við Leifsstöð
Umferðareftirlitsmenn lögreglunnar gerðu víðreist í síðustu viku. Meðal annars fengu þeir lögreglumenn á Suðurnesjum til liðs við sig og ræddu, ásamt skattayfirvöldum, við fjölda atvinnubílstjóra við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þrír ökumenn voru þar kærðir fyrir brot á umferðarlögum.

Fyrri greinVilja byggja upp öfluga rannsóknarmiðstöð garðyrkjunnar að Reykjum
Næsta greinHundur át gæs