„Tek á móti viðskiptavinum sem gestum“

Síðastliðinn laugardag opnaði gjafavöruverslunin VAX að Austurvegi 21 á Selfossi, í Gamla bankanum.

„Ég flutti á Selfoss fyrir þremur árum. Ég keyrði á milli til Reykjavíkur í tvö ár en vildi þá fara að kíkja í kringum mig hér fyrir austan með vinnu. Ég hafði farið á ilmkertanámskeið í London og námskeið í kertagerð í Suður-Frakklandi og langaði að gera eitthvað í kringum það. Ég hef alltaf haft gaman af fallegri hönnun og að gera eitthvað í höndunum,“ segir Sandra Grétarsdóttir, eigandi VAX, í samtali við sunnlenska.is.

„Ég byrjaði á að þróa ilmkerti og híbýlailma og út frá því ákvað ég að opna upplifunarverslun þar sem ég væri að gera kertin og selja. Þaðan kemur nafnið VAX, fyrir utan hvað orðið er stutt og fallegt,“ segir Sandra.

Íslenskt handverk í fyrirrúmi
Sandra segir að hana hafi langað að bjóða upp á fallega íslenska hönnunarvöru. „Mér fannst mega vera meira úrval af íslenskri hönnunarvöru á Selfossi. Í VAX er meðal annars boðið upp á vörur frá Farmers Market, Feldi og Reykjavík Letterpress. Einnig er í boði íslenskt handverk eftir Ernu Jónsdóttur og Kristján Egilsson.“

Að sögn Söndru hefur eggformið alltaf heillað hana og er mest af handverkinu er tengt því. „Ég hef í mörg ár verið að gera skrautegg á fæti og hef þau einnig til sölu. Erna gerir egglaga skálar úr postulíni sem hún málar og postulínsegg til að hengja á vegg, Kristján gerir egg úr gifsi sem hann málar og eru bæði til að hengja á vegg og standa á borði. Falleg kort, servíettur og fleira frá Reykjavík Letterpress, súkkulaði frá Omnom og salt frá Saltverk. Það ættu allir að geta fundið eitthvað fallegt og gott. Einnig er nytja- og gjafavara frá dönskum og hollenskum aðilum, meðal annars House Doctor og Vanilla Fly.“

Ilmkertanámskeið í vetur
Sandra segir að hún hafi lengi haft áhuga á plássi í Gamla bankahúsinu. „Þetta er eitt af fallegustu húsunum á Selfossi og með sál, ef svo má segja. Mér tókst að fá það til leigu og þá var bara að byrja að mála og breyta. Stuttu áður en allt ferlið fór í gang kom í ljós að ég gat ekki haldið áfram samstarfi við birgjann erlendis þaðan sem ég fékk vaxið og allt til ilmkertagerðarinnar. Ég ákvað samt sem áður að halda áfram með að opna búðina og finna mér nýjan birgja. Ilmkertin og híbýlailmarnir koma því síðar, en einnig mun ég bjóða upp á námskeið í gerð ilmkerta. Þau verða á kvöldin, á íslensku og ensku.“

„Búðin opnaði 1. september og er opin virka daga kl. 11-18 og á laugardögum kl. 11-16. Einnig geta hópar komið í heimsókn að kvöldi til, til dæmis saumaklúbbar. Ég lít svo á að viðskiptavinir sem kíkja inn séu gestir og tekið er á móti þeim sem slíkum,“ segir Sandra.

„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og ég hlakka til að taka á móti fjölda gesta í VAX,“ segir Sandra að lokum.

Fyrri greinFyrstu réttir um næstu helgi
Næsta greinGOS semur við Vegagerðina um færslu golfbrauta