Taumur fékk styrk til plöntukaupa

Auður og Guðlaug garðyrkjustjóri, þegar grafan mætti í hundagerðið til þess að taka holurnar. Ljósmyndir/Aðsendar

Fyrr á árinu fékk Taumur, hagsmunafélag hundaeigenda í Árborg, 400 þúsund króna styrk til plöntukaupa úr Vorvið, sjóð á vegum Umhverfisráðuneytisins. Samtals var úthlutað 50 milljónum króna til félaga og samtaka, í skógarreiti á þeirra vegum.

Nú er komið að gróðursetningu en trjánum verður plantað norðan og suðaustan við hundagerðið við Suðurhóla á Selfossi, til þess að mynda skjól fyrir erfiðustu vindáttunum. Guðlaug Friðrikka Þorsteinsdóttir, garðyrkjustjóri Árborgar, veitti ráðgjöf og lét taka 80 holur fyrir plönturnar, þannig að félagar í Taumi þurfa ekkert að grafa – bara að gróðursetja.

Þarna stendur til að gróðursetja aspir, sitkagreni og blöndu af lauftrjám sem koma frá Gróðrarstöðinni Kjarri í Ölfusi. Stjórn Taums skipuleggur gróðursetninguna, sem verður í næstu viku.

Félagar í Taumi hafa þegar gróðursett nokkuð á svæðinu en félagið hefur til umráða eins hektara landræmu, sem er hluti af grænum skógarkraga í útjarðri bæjarins.

Fyrri greinÍshellan hefur sigið um 15 metra
Næsta greinÞórsarar töpuðu þegar Styrmir sneri heim