Tapar 7,5 milljónum á bíómynd

Atvinnuþróunarfélag Suðurlands tapaði 7,5 milljónum á kvikmyndinni Bjólfskviðu, sem meðal annars var kvikmynduð í Mýrdalnum árið 2004, en náði aldrei flugi.

Hlutafélagið Gjöll ehf., sem Atvinnuþróunarfélagið átti 41,3% hlut í á móti Byggðastofnun, hefur afskrifað eignfærðan hlut í Bjólfskviðu að fjárhæð 17.150.000 kr. niður að fullu og lækkað hlutafé sitt niður í 500 þúsund.

Nú hefur verið ákveðið að selja félagið á eina krónu til Frumkvöðlaseturs Austurlands ehf. Með sölunni er komist hjá því að greiða 85 þúsund kr. skuld til Frumkvöðlasetursins og kostnað við auglýsingu ef félagið yrði lagt niður.

Sædís Íva Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélagsins, segist ekki vita á hvaða forsendum félagið tók þátt í verkefninu á sínum tíma þar sem ákvörðunin var tekin áður en hún tók til starfa en Frumkvöðlasetrið getur með þessu móti nýtt kennitölu Gjallar síðar meir.

Bjólfskviða, sem leikstýrt var af Sturlu Gunnarssyni, halaði inn tæplega 67 þúsund dollara í Bandaríkjunum samkvæmt www.imdb.com eða rúmar 7,7 milljónum króna.

Fyrri greinBrann hefur áhuga á Babacar
Næsta greinAlþjóðleg ráðstefna á Selfossi