Tap upp á 21 milljón á rekstri Árborgar 2015

Rekstur A- og B-hluta Sveitarfélagsins Árborgar var neikvæður um rúmar 21 milljón árið 2015, sem er rúmum 68 milljónum betri niðurstaða en fjárhagsáætlun ráðgerði. Tap af A-hluta bæjarsjóðs var 357 milljónir króna.

Munar mest um að útsvarstekjur jukust á síðustu mánuðum ársins, en síðasti viðauki áætlunarinnar var lagður fram í október. Því má segja að breytingin hafi komið mjög seint inn. Heildartekjur námum 6,9 milljörðum króna en heildarútgjöld urðu rétt um 6 milljarðar. Afskriftir námu 419 milljónum, fjármagnsgjöldin námu 516 milljónum króna nettó og varð smávægilegur afgangur af rekstri bæjarsjóðs og stofnana hans upp á 123 þúsund króna. Tekjuskattsgreiðslur námu 21,2 milljónum króna og því varð hallinn alls 21,1 milljón.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, bendir á að rekstrarkostnaður hafi einnig verið undir áætlunum. „Það stafar kannski fyrst og fremst af því að stjórnendur hjá sveitarfélaginu hafa gætt fyllsta aðhalds, enda ekki vanþörf á eftir allar þær launahækkanir sem dunið hafa á sveitarfélögum síðustu misseri,“ segir hún. Hækkun lífeyrisskuldbindinga kemur í kjölfar kjarasamningshækkana og hefur áhrif bæði á gjaldahliðina og skuldahliðina. Þannig voru rúmlega 150 milljónir króna gjaldfærðar vegna þessa liðar, auk þess sem skuldbindingar sveitarfélagsins hækka um sömu tölu vegna þessa.

„Það er allnokkur biti, en þrátt fyrir þetta náðist að halda skuldahlutfallinu undir 150 prósenta viðmiðinu,“ segir Ásta.

Skuldir eru enn miklar, og skuldahlutfallið 148,4 prósent, líkt og Ásta bendir á. Fjárfestingar ársins 2015 námu 839 milljónum króna, veltufé frá rekstri var 770 milljónir og 799,5 milljónir voru greiddar í afborganir lána. Ný lán voru tekin að fjárhæð 1,1 milljarð króna en samkvæmt því sem Ásta segir verður áfram leitast við að vinna að hagræðingu í rekstri og lækkun skulda eins og kostur er.

Minnihlutinn segir stöðuna grafalvarlega
Síðari umræða um ársreikningana fór fram á fundi bæjarstjórnar í maímánuði. Þar sögðu fulltrúar minnihlutans fjárhagsstöðu sveitarfélagsins grafalvarlega.

„Það er ljóst við framlagningu ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 2015 að grafalvarleg staða er í fjármálum þess. Eitt árið enn er A-hluti bæjarsjóðs rekinn með tapi og er það núna 357 milljónir, eftir afskriftir og fjármagnsliði. Bæjarsjóður hefur þá verið rekinn með tapi samfellt í átta ár, eða frá því árið 2008. Þrátt fyrir að horft sé á rekstur bæði A- og B- hluta saman, er samt tap upp á 21 milljón. Er það í fyrsta skipti í sex ár sem tap er á rekstri A- og B-hluta,“ sagði Helgi S. Haraldsson, B-lista, meðal annars í bókun sinni.

Í bókun Eggerts Vals Guðmundssonar og Örnu Írar Gunnarsdóttur, S-lista, segir að ársreikningurinn sýni glöggt að ekki hafi tekist að ná böndum utan um rekstur sveitarfélagsins.

„Sú staðreynd að rekstur í vaxandi sveitarfélagi skili tapi upp á 357 milljónir króna er í senn nöturleg og grafalvarleg. Fyrir tveimur árum var afgreiddur ársreikningur vegna ársins 2013 með tapi uppá 37 milljónir, síðan þá hefur leiðin legið beint niður á við. Vissulega voru lögbundnar kjarasamningshækkanir starfsfólks sveitarfélagsins þungar, en það skýrir eingöngu hluta vandans. Skuldahlutfall bæjarsjóðs er 148,4% sem er við þau skuldaviðmið sem fjármálareglur sveitarfélaga kveða á um. Það er því ljóst að ekki má mikið út af bera til að sveitarfélagið lendi á borði eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga,“ segir meðal annars í bókun Eggerts og Örnu.