Talsverður eldur á byggingarsvæði í Ölfusi

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði réði niðurlögum elds í gámi og vinnuskúr við nýbyggingu í Ölfusinu, skammt sunnan við Hveragerði snemma í morgun.

Útkallið barst um klukkan hálf sex þegar vegfarandi tilkynnti Neyðarlínunni um brunalykt.

„Það tók okkur smá stund að átta okkur á því hvar þetta var en síðan reyndist vera talsverður eldur í þessu. Það gekk hratt að ráða niðurlögum hans en við vorum með sjö slökkviliðsmenn á staðnum,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Lárus segir að jólin og áramótin hafi verið nokkuð róleg hjá Brunavörnum Árnessýslu. Á jóladagsmorgun kviknaði í bíl í Árnesi í Gnúpverjahreppi en fyrsta útkall ársins 2023 barst um klukkan 2:30 á nýársnótt þegar tilkynnt var um eld í ruslatunnuskýli við leikskólann Jötunheima á Selfossi.

Fyrri greinNíu fluttir með flugi á sjúkrahús
Næsta greinStórbruni á Hörgslandi