Talsverð umferð og nokkur óhöpp

Talsverð umferð var í Árnessýslu um helgina. Ellefu umferðaróhöpp voru skráð hjá lögreglu í síðustu viku. Meðal annars varð harður árekstur á mótum Skeiðavegar og Skálholtsvegar á föstudagskvöld.

Tvö ökutæki voru þar í samfloti en ökumaður fremri bifreiðarinnar ætlaði að beygja til vinstri og dró úr hraða og stöðvaði með þeim afleiðingum að bifreiðin sem var á eftir skall harkalega aftaná henni. Átta manns voru flutt á heilsugæsluna á Selfossi til skoðunar og þrír þaðan áfram á Slysadeild Landspítala í Fossvogi. Enginn reyndist alvarlega slasaður. Báðar bifreiðarnar voru fjarlægðar af vettvangi með kranabíl en rigning og slæmt skyggni var þegar óhappið varð. Skeiðavegur var lokaður í rúma klukkustund vegna slyssins.

Síðdegis á miðvikudag valt bifreið útaf Þrengslavegi í Skógarhlíðarbrekku. Ökumaður slasaðist ekki en er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna.

Á þriðjudagsmorgun varð harður árekstur á Langholti á Selfossi þegar tvær bifreiðar lentu framan á hvorri annarri. Talið er að annar ökumaðurinn hafi sofnað undir stýri. Hann var einn í bílnum en í hinum bílum var einn farþegi auk ökumannsins. Fólkið var allt flutt á heilsugæsluna á Selfossi þar sem læknir kannaði meiðsli sem reyndust minni háttar. Báðar bifreiðarnar voru óökufærar eftir áreksturinn.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Fyrri greinGagnrýna frestun á stækkun friðlands
Næsta greinStal flatskjá og DVD spilara