„Talsverð þreyta komin í mannskapinn“

Mikið álag hefur verið á lögreglumönnum hjá Lögreglunni á Suðurlandi allt síðasta ár og það sem af er árinu 2016. Lögreglan þarf að forgangsraða verkefnum sínum og kemst bara í brýnustu málin að mati Adolfs Árnasonar, sem er formaður Lögreglufélags Suðurlands.

„Löggæslumál á Suðurlandi eru í mjög góðum málum þar sem að metnaður lögreglumanna í almennu deild og rannsóknardeild er mjög mikill. Lögreglumenn kappkosta að gefa sér þann tíma sem þarf til að sinna þeim verkefnum sem koma upp. En það sem vantar mikið upp á fjármagn til rekstursins á embættinu. Það eru svo mörg verkefni sem lögreglan vill sinna betur eins og t.d. forvarnarmál svo eitthvað sé nefnt,“ segir Adolf aðspurður um ástand löggæslumála almennt í umdæminu.

Í Lögreglufélagi Suðurlands eru þrjátíu og sjö félagsmenn og það eru ekki allir lögreglumenn á Suðurlandi í félaginu. „Það þyrfti að fjölga um að minnsta kosti fimmtán lögreglumenn til að lögreglan gæti sinnt meira en bara neyðarþjónustu. Lögreglan á Suðurlandi þarf talsverða styrkingu á Selfoss þar sem allt of fáir lögreglumenn eru á vaktinni hverju sinni og einnig þarf það að heyra sögunni til að lögreglumenn séu einir í bíl,“ segir Adolf.

Mikið álag sé á lögreglumönnum á Selfossi hvað varðar mikla aukavinnu um helgar. Af þeim sökum eigi lögreglumenn fáa frídaga um helgar í hverjum mánuði. Vegna álagsins segir Adolf talsverða þreytu vera komna í mannskapinn.

„Já, það á við um allt lögregluliðið á Suðurlandi. Það þarf að fjölga lögreglumönnum. Við höfum rætt þessar áhyggjur okkar við yfirstjórn Lögreglunnar á Suðurlandi og þeir vita af þessu.“

Sjá nánar viðtal við Adolf Árnason í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinÍsbjörninn lenti undir Hamrinum
Næsta greinÖruggur sigur í lokaumferðinni