Talmeinafræðingur til starfa á Hellu

Fyrsti talmeinafræðingurinn sem starfar hjá Rangárþingi ytra tók til starfa í dag en það er Hvergerðingurinn Álfhildur Þorsteinsdóttir.

Álfhildur mun sinna talþjálfun barna á leik- og grunnskólaaldri og verður í 40% starfi hjá sveitarfélaginu. Hún mun hafa aðsetur í leikskólanum Heklukoti á Hellu en hún vinnur einnig á Skólaskrifstofu Suðurlands.

Talmeinafræðingur hefur aldrei áður starfað hjá sveitarfélaginu, þannig að hér er um nýtt starf að ræða sem verður fjármagnað að hluta með gjaldtöku. Á heimasíðu sveitarfélagsins segir að þessi aukna þjónusta muni áreiðanlega koma mörgum fjölskyldum til góða, sem hingað til hafa þurft að sækja hana til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði og vinnutapi.