Talinn hafa látist af slysförum

Flest bendir til þess að maður sem fannst látinn á hótelherbergi á Hótel Örk, laugardagskvöldið 4. apríl, hafi látist af slysförum.

Rannsókn lögreglunnar á Selfossi, sem nýtur liðsinnis tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, stendur enn yfir.

Maðurinn, sem var tæplega sextugur Íslendingur, fannst á hótelherberginu eftir að samferðafólk hans var farið að undrast um hann. Hótelstarfsmaður var fenginn til að opna herbergi hans og var hann þá látinn þar inni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu Ríkisútvarpsins kom í ljós við krufningu á miðvikudag að maðurinn var með innvortis áverka. Talið er að hann hafi látist af völdum þeirra. Lögreglan hefur meðal annars kannað hvort áverkarnir gætu verið að völdum húsgagna í herbergi mannsins. Eins hefur lögreglan farið yfir myndskeið úr öryggismyndavélum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu Ríkisútvarpsins bendir allt til þess að svo stöddu að maðurinn hafi dottið í herberginu og við það hlotið innvortis meiðsl á síðu.

Ekki er hægt að greina frá nafni mannsins að svo stöddu.

Fyrri greinÓveður undir Eyjafjöllum – Hríðarbylur á Hellisheiði
Næsta greinSamið við JÁVERK fyrir stórframkvæmd í Bláa lóninu