Táknrænt nafn fyrir leikskólann við ströndina

(F.v.) Tinna Björg Kristinsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri, Birna Guðrún Jónsdóttir, leikskólastjóri, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri sem sá um að draga, Rúnar Eiríksson og Hulda Guðmundsdóttir en Vigdís Unnur Pálsdóttir var fjarverandi. Ljósmynd/Árborg

Leikskólinn Brimver/Æskukot á Eyrarbakka og Stokkseyri mun hér eftir heita Strandheimar og er nafnið til komið eftir nafnasamkeppni sem haldin var í vor.

Alls voru þrír einstaklingar sem komu með tillögu að því nafni; þau Hulda Guðmundsdóttir, Rúnar Eiríksson og Vigdís Unnur Pálsdóttir. Gripið var til þess ráðs að draga út sigurvegara í nafnasamkeppninni og kom nafn Rúnars upp úr hattinum. Hann fékk í verðlaun gjafabréf að þriggja rétta máltíð fyrir tvo hjá Rauða húsinu á Eyrarbakka og allir tillöguhafar fengu blóm í viðurkenningarskyni.

Nafnið Strandheimar hæfir leikskólanum vel og er táknrænt fyrir þær sakir að þorpin, Eyrarbakki og Stokkseyri, eru staðsett við strandlengju sem myndar tengingu þeirra á milli. Með því að láta nafnið enda á –heimar er einnig mynduð tenging við fleiri leikskóla sem starfræktir eru í Árborg.

Í tilkynningu frá Strandheimum segir að leikskólinn muni hægt og rólega hefja innleiðingu að nýja nafninu, sem verður svo afhjúpað og tekið formlega til notkunar á vorhátíðum leikskólans í júní.

Fyrri greinAuður hlaut menningarviðurkenningu Árborgar
Næsta greinRangæingar fylktu liði í stofngöngu FFRang