Táknrænt fórnarlamb óstöðugs gengis

Rekstur BES ehf. á Selfossi hefur legið niðri frá því fyrir áramót en fyrirtækið hefur um árabil framleitt svokölluð preform sem eru flöskur úr PET plastefni sem aðallega eru notaðar af gosdrykkjaframleiðendum.

,,Rekstrarvandi félagsins stafaði lengi af erfiðri samkeppnisstöðu gagnvart innflutningi vegna sterks gengis krónunnar og eftir hrun hækkuðu lán félagsins umtalsvert. Fyrirtækið hefur af þeim sökum ekki getað fylgt eftir að fullu örri tækniþróun með breytingum á mótum og léttingu á vörunni til að standast samkeppni,” sagði Bergsteinn Einarsson, stjórnarformaður félagsins, í samtali við Sunnlenska.

Set á 17% hlut í BES og Bergsteinn segir að þeir hafi upphaflega komið að þessu sem áhugamenn um að efla plastiðnað hér Selfossi. ,,BES ehf. er að mörgu leyti táknrænt fórnarlamb óstöðugleika í gengismálum og efnahagsumhverfi hér á landi eins og mikill fjöldi annara fyrirtækja. Það hefur dregið úr vilja viðskiptabanka félagsins að viðhalda starfseminni hversu lág framlegð er af henni en það er einnig tímanna tákn á nýja Íslandi eftir efnahagshrunið hversu lítillar virðingar og velvilja innlend framleiðslustarfsem nýtur bæði á fyrirtækja og neytendamarkaði.

Innflutningur eykst á iðnaðarvörum á kostnað innlendrar atvinnu og umsvifa og kaupendur leita í meira mæli eftir vöru erlendis frá og njóta oft tímabundinna undirboð,” sagði Bergsteinn.

Fyrri greinHyggst ekki fara að tilmælum úrskurðarnefndar
Næsta greinHeilagur draumur á Íslensku tónlistarverðlaununum