Taka viðvörun landgræðslustjóra alvarlega

Verkefnisstjórn um byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri, tekur áhyggjur landgræðslustjóra alvarlega en hann hefur varað við byggingu þekkingarseturs á bökkum Skaftár.

„Verkefnisstjórn um byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri, skipuð fulltrúum Skaftárhrepps, Kirkjubæjarstofu, Vatnajökulsþjóðgarðs og áhugahóps um Errósetur listamiðstöð, er fullkunnugt um áhyggjur landgræðslustjóra og tekur þær alvarlega,“ segir í tilkynningu frá verkefnisstjórninni.

„Fyrirhuguð byggingarlóð er vissulega nálægt bökkum Skaftár. Hún er stór og aðeins hluti hennar getur talist vera í flóðfarvegi árinnar. Í vinnslu er óháð, verkfræðileg rannsókn (áhættumat) á því hvort lóðin sé örugg með tilliti til flóðahættu og hvernig koma megi fyrirhuguðu þekkingarsetri sem best fyrir innan hennar svo að fyllsta öryggis sé gætt.

Verði niðurstaða matsins sú að áhætta vegna flóða sé óásættanleg verður fundin önnur lóð undir þekkingarsetur. Niðurstöðu matsins er að vænta á næstu vikum,“ segir einnig í tilkynningunni.

Undir hana skrifa Jóna Sigurbjartsdóttir, formaður stjórnar Kirkjubæjarstofu og Snorri Baldursson, þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarði.

TENGDAR FRÉTTIR:
Varað við byggingu í flóðfarvegi